Í nýrri skýrslu Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar WHO um upp­tök CO­VID-19 far­aldursins kemur fram að lík­legasta or­sökin sé sú að veiran hafi smitast frá leður­blökum yfir í mann­fólk í gegnum önnur dýr. Talið er mjög ó­lík­legt að far­aldurinn hafi átt upp­tök sín á rann­sóknar­stofu.

Skýrslan hefur enn ekki verið birt opin­ber­lega en þetta kemur fram í frétt AP frétta­stofunnar sem komst yfir drög af skýrslunni í gegnum heimildar­menn. Niður­stöður skýrslunnar eru að mestu leyti eins og búist var við en þó er mörgum spurningum enn ó­svarað.

Birtingu skýrslunnar hefur í­trekað verið frestað sem hefur vakið upp grun­semdir um að Kín­verjar hafi reynt að hafa á­hrif á niður­stöður rann­sóknarinnar í þeim til­gangi að koma sér undan á­byrgð á út­breiðslu CO­VID-19. Rann­sóknar­teymi á vegum WHO ferðaðist til Wu­han í febrúar síðast­liðnum til að rann­saka upp­tök far­aldursins.

Peter Ben Emba­rek, sér­fræðingur á vegum WHO sem hafði um­sjón með leið­angrinum til Wuhan, sagði á föstu­dag að verið væri að leggja loka­hönd á skýrsluna og að hún ætti að verða til­búin á næstu dögum. Ekki er ljóst hvort að loka­út­gáfa skýrslunnar verði frá­brugðin þeirri út­gáfu sem AP hefur undir höndum.

„Ég býst við því að ferlinu verði lokið á næstu dögum og þá munum við geta birt hana opin­ber­lega,“ sagði Emba­rek á föstu­dag.

Nefna fjórar líklegar orsakir

Í skýrslunni eru nefndar fjórar lík­legar or­sakir fyrir út­breiðslu SARS-CoV-2 veirunnar. Efst á lista er út­breiðsla í gegnum önnur dýr sem rann­sak­endur telja vera á bilinu lík­legt til mjög lík­legt. Þá er bein út­breiðsla frá leður­blökum yfir í mann­fólk einnig talin lík­leg og út­breiðsla í gegnum kæli­keðju frosinna mat­væla er talin mögu­leg en ó­lík­leg.

Niður­stöður skýrslunnar skera ekki úr um hvort að upp­tök far­aldursins megi rekja til Huanan fisk­markaðarins í Wu­han þar sem fyrstu hóp­smitin greindust í desember 2019. Upp­götvun annarra smita sem áttu sér stað fyrr benda til þess að upp­tök far­aldursins sé að finna annars staðar.

„Engar ó­yggjandi niður­stöður hafa fengist um þátt Huanan fisk­markaðarins í upp­tökum far­aldursins og ekki er vitað hvernig veiran fann sér leið inn á markaðinn að svo stöddu,“ segir í skýrslunni.