Mannanafnanefnd hefur birt nýja úrskurði um umsóknir um ný nöfn er borist hafa nefndinni. Ýmis ný nöfn hafa því bæst við íslensku nafnaflóruna en einu nafni var hafnað.
Karlkyns eiginnöfnin Óríon, Dylan og Matheo voru til að mynda samþykkt ásamt kvenkyns eiginnöfnunum Telekía og Ástmarý.
Eiginnafninu Ýdu var hins vegar hafnað því það taldist ekki samræmast almennum ritreglum íslensks máls.
Þá voru kynhlutlausu eiginnöfnin Ragn og Norður samþykkt og þeim bætt við mannanafnaskrá.
Karlkyns eiginnafnið Eldhamar var einnig samþykkt en tekið af lista yfir millinöfn samhliða.
Heildarlista yfir nöfnin má sjá hér að neðan en úrskurði mannanafnanefndar má finna á vef Stjórnarráðsins.
Samþykkt nöfn
- Dylan (kk.)
- Eldhamar (kk.)
- Matheo (kk.)
- Óríon (kk.)
- Ástmarý (kvk.)
- Lucy (kvk.)
- Telekía (kvk.)
- Ragn (kynhlutlaust)
- Norður (kynhlutlaust)
Nöfn sem var hafnað
- Ýda (kvk.)