Andrés Ingi Jónsson, nú óháður þingmaður, segir ágreining um stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn hafi verið áskorun og skapað ágreining innan þingflokks Vinstri grænna. Aðgerðaleysi í loftslagsmálum og útlendingamál hafi verið meðal ástæðna úrsagnar sinnar.

„Um þessar mundir eru tvö ár síðan flokksráð Vinstri grænna samþykkti að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Sú ákvörðun var nógu umdeild til að fjöldi félaga sagði skilið við hreyfinguna. Þrátt fyrir að ég hafi ekki stutt ríkisstjórnina á flokksráðsfundi ákvað ég að starfa áfram innan þingflokks VG – ekki síst til að styðja hina ágætu ráðherra Vinstri grænna til góðra verka,“ segir í tilkynningu sem Andrés Ingi birti á Facebook síðu sinni í dag.

Tilkynnt var á þingfundi að Andrés Ingi hafi sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna og ætli sér að starfa sem óháður þingmaður út kjörtímabilið.

Andrés Ingi segir að samskipti og samstarf í þingflokknum hafi verið áskorun eftir þann ágreining sem stjórnarsamstarfið skapaði. Hann telur þó að allir hafi lagt sig fram um að vinna sem best saman.

„Það hafa á þessu tíma safnast upp dæmi sem mér þykja til marks um það sem ég óttaðist í upphafi: að Vinstri græn ættu sífellt erfiðar með að veita samstarfsflokkunum mótspyrnu og stjórnarsamstarfið færðist enn fjær því sem flokkurinn ætti að standa fyrir. Vissulega höfum við náð árangri en oft hafa málamiðlanir fallið fjarri okkar hugsjónum, eins og birtist til að mynda í stjórnarfrumvarpi um útlendinga á liðnu vori. Aðkallandi aðgerðir til að sporna við hamfarahlýnun hafa ekki gengið jafn langt og ég tel nauðsynlegt og sjálfsagt í ríkisstjórn undir forystu grænnar hreyfingar,“ segir Andrés.

Hann segist hafa upplifað síðastliðin tvö ár að samstarfið hafi heft hann í að vinna af fullum krafti fyrir þeim hugsjónum sem hann var kosinn fyrir.

„Nú er svo komið að ég tel fullreynt að ég geti sinnt þingstörfum eftir samvisku minni og sannfæringu við núverandi aðstæður.“