Umboðsmaður Alþingis segist ekki geta tekið kvörtun sóknarprests á hendur Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, til efnislegrar skoðunar þar sem starfsmannamál þjóðkirkjunnar falli alfarið utan starfssviðs hans í kjölfar breytinga á lagalegri stöðu kirkjunnar. Þetta kemur fram í bréfi á heima­síðu um­boðs­manns Al­þingis.

Ekki er tiltekið um hvaða prest er að ræða, en í bréfinu kemur fram að kvörtun hans snúi að því að biskup hafi leyst hann tímabundið frá störfum. Presturinn hafi verið skipaður í eldri tíð laga og í því samhengi hafi hann vísað til bráðabirgðaákvæða laga frá 2019, sem tóku mið af viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Samkvæmt þeim gerði presturinn þá kröfu að hann ætti að halda bæði réttindum og skyldum sem af skipun leiddi út skipunartíma sinn.

„Um­boðs­maður rakti hvernig breytingar á lögum hefðu leitt til þess að prestar væru ekki lengur em­bættis­menn eða opin­berir starfs­menn og hefði hann þ.a.l. talið að á­kvarðanir um ný­ráðningar presta féllu nú utan starfs­sviðs hans. Í þessu ljósi taldi hann ekki unnt að líta svo á að í fyrr­greindu bráða­birgða­á­kvæði fælist annað en á­rétting á ó­breyttri réttar­stöðu við­komandi gagn­vart kirkjunni sem vinnu­veitanda við þær breytingar sem gerðar hefðu verið í átt að fullu sjálf­stæði,“ segir í bréfinu.

Breytingar á lagalegri stöðu þjóðkirkjunnar gætu því ekki haggað sjálf­stæðri stöðu stofnunarinnar né því að prestar teljist ekki lengur til em­bættis­manna eða opin­berra starfs­manna, þar á meðal prestar sem skipaðir voru í eldri tíð laga.

„Þá gerði um­boðs­maður grein fyrir því að starfs­svið hans tæki til stjórn­sýslu ríkis og sveitar­fé­laga og einungis til starf­semi einka­aðila að því leyti sem þeim hefði að lögum verið fengið opin­bert vald til að taka á­kvarðanir um rétt eða skyldur manna,“ segir í bréfinu. Mál sóknar­prestsins heyri því ekki undir eftir­lit um­boðs­manns og þar af leiðandi geti hann ekki tekið kvörtunina til efnis­legrar skoðunar.

Leiða má líkur að því að kvörtunin sem um ræðir hafi komið frá Gunnari Sigurjónssyni, fyrrverandi sóknarpresti í Digraneskirkju. Í samtali við Fréttablaðið í lok síðasta mánaðar staðfesti Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Gunnars, að hún hefði sent inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd Gunnars yfir hæfi Agnesar M. Sigurðardóttur, biskup Íslands.

Gunnar var sóknarprestur við Digranes- og Hjallaprestakall en var sendur í leyfi vegna ásakana sex kvenna um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan kirkjunnar í desember 2021 á meðan óháða teymi þjóðkirkjunnar var með mál hans til skoðunar. Leyfið var framlengt í að minnsta kosti þrígang og rann síðast út þann 1. september í fyrra.

Biskupsstofa greindi frá því síðar í sama mánuði að teymið teldi Gunnar hafa gerst brotlegan við reglur kirkjunnar tíu sinnum og myndu ekki snúa aftur. Áformað væri að gefa honum skriflega áminningu. Síðan þá hefur þó lítið gerst í máli Gunnars, sem er æviskipaður og enn á launum.

„Hann er í algjörri óvissu,“ segir Auður. „Honum verður ekkert sagt upp nema í samræmi við lög og reglur. Ákvörðun um það hefur aldrei verið birt honum, hann fékk að vita það í fjölmiðlum að hann væri ekki lengur sóknarprestur.“