Sameiginlegur auður sem tíu ríkustu einstaklingar heims hafa safnað sér frá því að kórónuveirufaraldurinn dugar til að kaupa bóluefni handa öllum jarðarbúum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam, en samtökin berjast fyrir aukinni skattlagningu á auðuga einstaklinga.

Samkvæmt skýrslunni er hagnaður milljarðamæringa sambærilegur öllum útgjöldum tuttugu stærstu iðnríkja heims vegna faraldursins. Skýrslan kemur út á sama tíma og Davos-fundurinn heimsleiðtoga fer fram, rafrænt að þessu sinni.

Þar segir að auðæfi milljarðamæringa hafi aukist um 3,9 billjónir dollara frá 18. mars til 31. desember í fyrra. Auðæfi þeirra tíu allra ríkustu, þar á meðal Elon Musk, Jeff Bezos, Mark Zuckerberg og Bill Gates, hafa aukist um 540 milljarða dollara á sama tímabili. Þar segir að Bezos hafi strax í september átt efni á því að gefa öll starfsmönnum Amazon 100 þúsund dollara en samt verið jafn ríkur og hann var áður en faraldurinn skall á.

„Við teljum að nú sé tækifæri til að ráðast í róttækar aðgerðir til að ná sanngjarnara samfélagi með því að huga að sköttum á auðæfi, með sköttum á fyrirtæki og huga að því að auka jöfnuð fyrir alla,“ sagði Danny Sriskandarajah, yfirmaður Oxfam í Bretlandi við BBC.

Margir auðkýfingar hafa hins vegar gefið mikið af sínum peningum til hjálparstarfs vegna faraldursins. Jack Dorsey, annar stofnandi Twitter, gaf milljarð dollara til hjálparstarfs, fjórðung sinna auðæfa. Þá hefur Bill Gates gefið 305 milljónir dollara til þróunar bóluefnis og Bezos 125 milljónir.