Sorpa BS gerir ráð fyrir að tekjur muni á næsta ári hækka um 24 prósent með nýrri gjaldskrá. Á sama tíma er gert ráð fyrir að sorp minnki um þrjú prósent. Ný gjaldskrá sem tekur gildi um áramótin var birt á vef Sorpu í síðustu viku. Fram kemur í rekstraráætlun Sorpu fyrir næsta ár að tekjurnar muni mæta auknum kostnaði við bætta úrgangsmeðhöndlun.

Unnið hefur verið að fjárhagslegri endurskipulagningu Sorpu frá því í febrúar eftir að í ljós kom að smíði gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, GAJA, í Álfsnesi hefði farið 1,4 milljörðum króna fram úr áætlun. Kostaði stöðin alls 5,3 milljarða króna.

Fram kemur í áætluninni að útflutningur á brennanlegum úrgangi til orkuendurvinnslu hefjist við árslok 2021 og að urðun verði hætt í Álfsnesi árið 2023. Reksturinn verður neikvæður í ár en gert er ráð fyrir að jafnvægi verði komið á við lok næsta árs.