Lagt er til að áfengis- og tóbaksgjald hækki um 2,5 prósent í nýju fjárlagafrumvarpi. Gert er ráð fyrir að áfengisgjald skili ríkissjóði um 23,8 milljörðum króna árið 2022 sem er aðeins hærra en árið 2021.

Áætlun tekna af áfengisgjaldi í frumvarpinu er tæplega 18 prósentum hærri en áætlun síðasta fjárlagafrumvarps gerði ráð fyrir.

Bjarni Benediktsson kynnti fjárlagafrumvarp sitt í morgun.
Mynd/Samsett

Samdráttur í utanlandsferðum hefur áhrif

Tekjur af áfengisgjaldi hafa aukist mikið í ár samkvæmt frumvarpinu. Er það talið skýrast meðal annars af aukinni einkaneyslu og samdrætti í ferðalögum Íslendinga erlendis.

Áfengi sem Íslendingar kaupa í fríhöfnum landsins bera aðeins 10 prósenta áfengisgjald og því aukast tekjur ríkissjóðs ef áfengi er keypt innanlands en ekki í fríhöfn að því gefnu að magnið sé það sama, segir í frumvarpinu.

Þannig geti færri ferðalög Íslendinga erlendis einnig skýrt sölu á áfengi en met voru slegin í áfengissölu í Vínbúðinni í júlí og ágúst síðast liðinn.