Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þing­maður Mið­flokksins, segir ráð­herra og stjórn­mála­menn séu búnir að gefa frá sér of mikið vald til að taka á­kvarðanir. Þetta sagði hann á Al­þingi í dag í um­ræðu um út­lendinga­frum­varp Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra, en það er lagt fram í fimmta sinn. Umræðan stendur enn yfir.

Sig­mundur segir flesta þing­menn lík­legast vera sam­mála um að taka eigi á móti flótta­fólki frá Úkraínu á þann hátt sem gert er, „enda gilda um það sér­stakar reglur og ekki bara hér á lendi heldur víða annars staðar.“

„Vandinn var hins vegar kominn fram og var orðinn aug­ljós löngu áður en að Úkraínu­stríðið hófst, þegar Ís­land var komið með lang­mestu á­sókn af Norður­löndunum hlut­falls­lega í að fá hér hæli,“ segir Sig­mundur Davíð.

Jón Gunnars­son segir heil­mikið til í því sem Sig­mundur Davíð segir um að þingið hafi gefið frá sér völd. „Ég held að það eigi við í mörgum til­fellum öðrum þar sem við erum með nefndir úti í bæ sem á­byrgðinni er varpað á,“ sagði hann.

Jón segir frum­varpið gera máls­með­ferð skil­virkari en hún hefur verið hingað til. „Það eru líka á­kvæði í þessu frum­varpi sem liðka mjög fyrir því að vinna með um­sækj­endur sem hlotið hafa synjun og eiga að fara úr landi, eru hér í raun í ó­lög­mætri dvöl,“ sagði hann.

Frum­varpið lagt fram í fimmta sinn

„Þetta er í fimmta sinn sem þetta frum­varp er lagt fram og ráð­herra hefur ekki haft fyrir því að upp­færa greinar­gerðina með frum­varpinu sem nær yfir­leitt til 2016, 2017 og jafn­vel ársins 2018. En þess ber að geta að núna er árið 2022,“ sagði Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar eftir flutnings­ræðu Jóns Gunnars­sonar.

Sig­mundur Davíð sagði dóms­mála­ráð­herra vera búinn að þynna út­lendinga­frum­varpið mikið. „Það er ekki annað að sjá, nú þegar þetta mál kemur hér fram í fimmta skipti, að það sé enn búið að þynna það út, það sé enn búið að bæta í kaffi­bætinn og minnka kaffið,“ sagði hann.

Helga Vala spurði Jón Gunnars­son hvað væri í frum­varpinu sem komi í veg fyrir að hingað komi for­dæma­laus fjöldi flótta­fólks.

„80% þeirra sem hér eru og hafa sótt um vernd á Ís­landi eru frá þeim tveimur ríkjum sem stjórn­völd á Ís­landi hafa tekið á­kvörðun um að veita vernd, það eru Úkraínu og Venesúela. Er eitt­hvað í þessu frum­varpi sem kemur í veg fyrir að fólk frá þessum ríkjum og öðrum þeim sem ís­lensk stjórn­völd taka á­kvörðun um að veita vernd komi hingað til lands?“

Jón Gunnars­son segir ýmis­legt annað sem bregðast þurfi við sam­hliða þessu. „Til að mynda auknar rann­sóknir lög­reglu á skipu­lagðri brota­starf­semi sem að hluta tengist yfir í al­þjóð­lega glæpa­starf­semi.“

Hann segir þær upp­lýsingar ekki einungis koma frá ís­lenskum lög­reglu­yfir­völdum, heldur komi það einnig frá lög­reglu­yfir­völdum í Evrópu og Europol. „Þannig að það er full á­stæða fyrir okkur að styrkja stöðu lög­reglunnar gagn­vart þeim rann­sóknum og eftir­fylgni á landa­mærunum með því að hér sé ekki verið að mis­nota meðal annars fólk sem er í þessari erfiðu stöðu,“ sagði Jón.