Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, segir ráðherra og stjórnmálamenn séu búnir að gefa frá sér of mikið vald til að taka ákvarðanir. Þetta sagði hann á Alþingi í dag í umræðu um útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, en það er lagt fram í fimmta sinn. Umræðan stendur enn yfir.
Sigmundur segir flesta þingmenn líklegast vera sammála um að taka eigi á móti flóttafólki frá Úkraínu á þann hátt sem gert er, „enda gilda um það sérstakar reglur og ekki bara hér á lendi heldur víða annars staðar.“
„Vandinn var hins vegar kominn fram og var orðinn augljós löngu áður en að Úkraínustríðið hófst, þegar Ísland var komið með langmestu ásókn af Norðurlöndunum hlutfallslega í að fá hér hæli,“ segir Sigmundur Davíð.
Jón Gunnarsson segir heilmikið til í því sem Sigmundur Davíð segir um að þingið hafi gefið frá sér völd. „Ég held að það eigi við í mörgum tilfellum öðrum þar sem við erum með nefndir úti í bæ sem ábyrgðinni er varpað á,“ sagði hann.
Jón segir frumvarpið gera málsmeðferð skilvirkari en hún hefur verið hingað til. „Það eru líka ákvæði í þessu frumvarpi sem liðka mjög fyrir því að vinna með umsækjendur sem hlotið hafa synjun og eiga að fara úr landi, eru hér í raun í ólögmætri dvöl,“ sagði hann.
Frumvarpið lagt fram í fimmta sinn
„Þetta er í fimmta sinn sem þetta frumvarp er lagt fram og ráðherra hefur ekki haft fyrir því að uppfæra greinargerðina með frumvarpinu sem nær yfirleitt til 2016, 2017 og jafnvel ársins 2018. En þess ber að geta að núna er árið 2022,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar eftir flutningsræðu Jóns Gunnarssonar.
Sigmundur Davíð sagði dómsmálaráðherra vera búinn að þynna útlendingafrumvarpið mikið. „Það er ekki annað að sjá, nú þegar þetta mál kemur hér fram í fimmta skipti, að það sé enn búið að þynna það út, það sé enn búið að bæta í kaffibætinn og minnka kaffið,“ sagði hann.
Helga Vala spurði Jón Gunnarsson hvað væri í frumvarpinu sem komi í veg fyrir að hingað komi fordæmalaus fjöldi flóttafólks.
„80% þeirra sem hér eru og hafa sótt um vernd á Íslandi eru frá þeim tveimur ríkjum sem stjórnvöld á Íslandi hafa tekið ákvörðun um að veita vernd, það eru Úkraínu og Venesúela. Er eitthvað í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir að fólk frá þessum ríkjum og öðrum þeim sem íslensk stjórnvöld taka ákvörðun um að veita vernd komi hingað til lands?“
Jón Gunnarsson segir ýmislegt annað sem bregðast þurfi við samhliða þessu. „Til að mynda auknar rannsóknir lögreglu á skipulagðri brotastarfsemi sem að hluta tengist yfir í alþjóðlega glæpastarfsemi.“
Hann segir þær upplýsingar ekki einungis koma frá íslenskum lögregluyfirvöldum, heldur komi það einnig frá lögregluyfirvöldum í Evrópu og Europol. „Þannig að það er full ástæða fyrir okkur að styrkja stöðu lögreglunnar gagnvart þeim rannsóknum og eftirfylgni á landamærunum með því að hér sé ekki verið að misnota meðal annars fólk sem er í þessari erfiðu stöðu,“ sagði Jón.