Fyrsta umræða um lagafrumvarp Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, um breytingu á lögum um útlendinga hófst rétt fyrir klukkan sjö í kvöld á Alþingi og stendur hún enn yfir. Frumvarpið snýr meðal annars að flutningu þjónustu milli ráðuneyta.

Lagafrumvarpið hefur verið gagnrýnt af ýmsum þingmönnum en til að mynda sagði Helga Vala Helgadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í kvöld að þetta væri í fjórða sinn sem reynt væri að koma frumvarpinu í gegnum þingið en án árangurs.

„Þetta er í fjórða sinn sem við ræðum efni þessa baneitraða frumvarps sem ætlað er að veikja réttarstöðu viðkvæmra hópa, fólks í leit að vernd undan ofsóknum, undan stríðsátökum, hungursneyð, náttúruhamförum og sára fátækt,“ sagði Helga Vala meðal annars.

Kölluðu eftir svörum

Helga Vala, ásamt fleiri þingmönnum, kölluðu eftir því að félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, yrði kallaður til svara þar sem frumvarpið snéri að breytingum sem heyra undir hann.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með Helgu Völu og spurði meðal annars hvers vegna dómsmálaráðherra væri að mæla fyrir breytingunum en ekki Guðmundur Ingi. Honum þætti viðeigandi að hann tæki þátt í umræðu um málið og kallaði eftir því að hann yrði viðstaddur við umræðuna.

Helga Vala segir ótrúlegt að þingmenn sem gefi sig út fyrir að vera félagslega þenkjandi og sýna mannúð leyfi því að gerast að frumvarpið sé lagt fram enn einu sinni.

Skoraði á þingmenn VG

„Með því að samþykkja þetta frumvarp er ljóst að sú sátt í útlendingamálum sem leitast var við að skapa við vinnslu núgildandi útlendingalaga glatast algerlega verði þessi óskapnaður samþykktur af stjórnarliðum hér í þinginu,“ sagði Helga Vala jafnframt en að lokum skoraði hún á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs að styðja ekki þetta „andstyggðar“ mál.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, tók undir með Helgu Völu og spurði Jón meðal annars hversu líklegt hann teldi að frumvarpið yrði að lögum og vísaði hún til þess að frumvarpið hafi verið lagt fram í þrígang áður og ekki náð fram að ganga.

Jón svaraði játandi, að hann gerði sér vonir um það.