Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöður ekki liggja fyrir um hvort hækka eigi gjaldskrá Sorpu. Hann sagði stjórnendur Sorpu ekki hafa leynt því að breytingar á gjaldskrá gæti verið hluti af „tiltekt“ sem nú standi yfir.

Tekist er á um erfiða stöðu Sorpu vegna gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJA á borgarstjórnarfundi í dag að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Eyþór Laxdal Arnalds spurði borgarstjóra hvort til stæði að hækka gjaldskrá Sorpu.

Bygging stöðvarinnar hefur farið langt fram úr kostnaðaráætlunum sem hefur valdið því að sveitarfélögin sem eiga fyrirtækið hafa þurft að ábyrgjast frekari lánveitingar til félagsins.

Kostar íbúa 5,3 milljarða

Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að framkvæmdirnar hafa kostað íbúa höfuðborgarsvæðisins um 5,3 milljarða króna. Þar var haft eftir þýskum sérfræðingum að tæknin, sem gas- og jarðgerðarstöðin ætlar að nota og keypt er frá danska fyrirtækinu Aikan A/S, byggist á úreltri tækni.

Mikil óánægja er meðal minnihlutans og segir Sjálfstæðisflokkurinn ýmsar spurningar vakna varðandi rekstraráætlun og aðgerðaráætlun.

Borgarstjóri segir stjórnendur Sorpu ekki hafa leynt því að breytingar á gjaldskrá gæti verið hluti af „tiltekt“ sem nú standi yfir.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Önnur eins steypa hefur nú varla verið borin á borð fyrir okkur enda er verkefnið stórt að umfangi. Það eru tólf braggar sem liggja nú þegar í Sorpu og þetta verkefni fór mjög fram úr og margt mjög einkennilegt við þennan rekstur,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á fundinum í dag.

Kolbrún Baldursdóttir, borgafulltrúi Flokks fólksins, lagði til í janúar að Líf Magneudóttir, stjórnarmaður Reykjavíkurborgar í Sorpu og borgarfulltrúi Vinstri grænna, víki úr stjórn Sorpu. Vigdís tók undir með þeirri tillögu taldi þekkingu Lífar á stöðu Sorpu vera yfirborðskennda.

„Þessu máli getum við ekki gleymt eins og er verið að biðja okkur um að gera. Tala bara um framtíðina en ekki fortíðina. Þessu máli gleymum við ekki, í það minnsta ekki ég,“ sagði Vigdís.