„Í dag er 96. dagur allsherjarstríðs Rússlands gegn ríkinu okkar, gegn okkur öllum, gegn ykkur öllum, gegn einingu Evrópu.“ Þetta sagði Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, í myndvarpsávarpi til leiðtoga ESB á fundi Evrópska ráðsins sem hófst í Brussel í gær. „Á svona fundum vill Rússland ekki sjá eiginlegt evrópskt ráð og ekki eitt Evrópusamband, heldur 27 ríki, 27 brot sem ekki er hægt að sameina í eina heild.“

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins funduðu í gær og í dag til að ræða nýjar efnahagsþvinganir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Vonir margra leiðtoga ESB stóðu til þess að fallist yrði á verslunarbann á rússneska olíu og gas. Helsti þrándur í götu slíks banns hefur verið Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem hefur líkt mögulegu innflutningsbanni á gas og olíu frá Rússlandi við að varpa „kjarnorkusprengju“ á ungverskan efnahag.

Í gær höfðu embættismenn ESB lagt drög að frumvarpi um olíuverslunarbann með tímabundinni undantekningu fyrir innflutning á hráolíu í gegnum leiðslur. Ungverjaland flytur inn alla olíu í gegnum leiðslur og yrði því undanþegið þess háttar banni að mestu leyti. Orbán sagði fyrir fundinn að þetta væri „rétta nálgunin“ en átti þó eftir að leggja endanlega blessun sína yfir samkomulagið. Meðal annars vildi hann leyfi fyrir því að flytja olíu til Ungverjalands með skipum ef lokað verður á Druzhba-olíuleiðsluna, sem sér Ungverjum fyrir mestöllum olíuforða sínum.

Vongóð um samkomulag

Leiðtogarnir sem sóttu fundinn voru misbjartsýnir á að komast að samkomulagi um málefnið. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagðist ekki búast við því að málið yrði útkljáð á næstu tveimur sólarhringum, en var þó vongóð um að komist yrði að sátt um verslunarbann eftir fundarlok. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagðist hafa „heyrt merki þess að hægt yrði að komast að samkomulagi“ en Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagðist harðákveðin í að komast að niðurstöðu á fundinum.

Í ávarpi sínu frá Kænugarði minntist Selenskíj á áhlaup Rússa í Donbas og sagði þá sýna hvernig skekja mætti samheldni Evrópuþjóða. Rússum hefur miðað töluvert áfram með áhlaupinu á síðustu dögum og Úkraínumenn viðhalda aðeins stjórn í litlum hlutum héraðanna Donetsk og Lúhansk. Rússar hafa viðurkennt sjálfstæði „alþýðulýðveldanna“ tveggja í héruðunum og segja „frelsun“ þeirra vera höfuðmarkmið áhlaupsins.

Nú stendur yfir harður bardagi um borgina Sjevjerodonetsk, sem er stærsta borgin í Lúhansk sem enn er undir úkraínskri stjórn. Borgarstjóri Sjevjerodonetsk, Oleksandr Strjúk, staðfesti í gær að rússneskir hermenn væru komnir inn í borgina og að götubardagar stæðu yfir innan hennar. Enn eru eftir um 12.000 til 13.000 óbreyttir borgarar í borginni sem flestir hafa leitað skjóls í kjöllurum og sprengjuskýlum undan loftárásum rússneska hersins. Fyrir innrásina var fjöldi borgarbúa í kringum 100.000.

Í viðtali sínu við Associated Press taldi Strjúk að um 1.500 óbreyttir borgarar í Sjevjerodonetsk hefðu verið drepnir síðan innrásin hófst. „Borgin hefur verið lögð í rúst,“ sagði hann.