Kröfuhafar þrotabús fasteignafélagsins Þórodds fara fram á að matsmaður verði skipaður til að meta Þóroddsstaði, við Skógarhlíð 22 í Reykjavík.

Þeir telja að skiptastjórinn Lárus Sigurður Lárusson hafi selt eignina langt undir markaðsvirði á fasteignasölu eiginmanns síns, Sævars Þórs Jónssonar. Var málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Hvorki Lárus né Sævar andmæla matsgerðinni en það gerir hins vegar kaupandi eignarinnar, Guðmundur Sigurjónsson, sem mætti í héraðsdóm í gær en þó án lögmanns.

Hann mótmælti matsgerðinni á þeim grundvelli að salan hefði gengið í gegn fyrir tveimur árum og búið væri að gera viðgerðir á eigninni. Matið hlyti því að verða bjagað, auk þess sem leigjendur væru í húsinu.

Gísli Hall, lögmaður kröfuhafa, taldi undarlegt að leggjast gegn skipun matsmanna. Benti það til þess að menn hefðu eitthvað að fela.