Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, og Jón Þór Ólason lögmaður tókust á um málefni fiskeldisiðnaðarins á málþingi í Norræna húsinu gær. Þeir fluttu erindi ásamt Ragnari Jóhannssyni frá Hafrannsóknarstofnun á málþingi um fiskeldi sem Píratar stóðu fyrir. Allir þrír voru sammála um að vilji sé fyrir hendi meðal allra um að auka eftirlit með fiskeldi.

Brauðfæða heiminn með minnsta kolefnissporinu

Kolefnisspor laxeldis er lágt og er um að ræða eina umhverfisvænastu framleiðsluna af dýrapróteini að sögn Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi ráðherra og stjórnarformanns Landssambands Fiskeldisstöðva, en hann flutti erindi fyrir hönd fiskeldisiðnaðarins.

Einar segir fiskeldi á Íslandi vera fjölbreytilegt og að Ísland hafi ráðandi stöðu á erlendum mörkuðum í bleikjueldi, þó að laxeldi sé stærst og muni vaxa mest á næstu árum. Hann segir stærstu ógnina sem við stöndum frammi fyrir vera baráttan gegn gróðurhúsaáhrifum.

Hann hafi ekki áhyggjur af gagnrýnisröddum um hættuna á erfðablöndu eldislaxa úr sjókví og villtra laxa og segir hana litla og staðbundna. Hann segir að með nýjustu lagabreytingum ríkisstjórnarinnar á reglugerðum varðandi fiskeldi, sé allra varúða gætt og iðnaðurinn byggður á vísindalegum grundvelli.

„Hvernig ætlum við að brauðfæða heim sem fer fjölgandi með þeim hætti sem skilur eftir sig sem minnsta kolefnisfótspor?“ spurði Einar á málþinginu og sagði fiskeldi vera eitt svar við þeirri stóru spurningu.

Jón Þór sakaði Einar K. um að velja sér ákveðna þætti úr stærri jöfnu til að láta fiskeldisiðnaðinn hljóma umhverfisvænan.
Fréttablaðið/ Pjetur Sigurðsson

„PR-slagur“ auðmanna

Jón Þór Ólason, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur flutti einnig erindi á sama málþingi, fyrir hönd náttúruverndarsinna. Hann sakaði Einar um að velja sér ákveðna þætti úr stærri jöfnu til að láta fiskeldisiðnaðinn hljóma umhverfisvænan. Hann segir það hluta af „PR-slag“ auðmanna á bak við þennan iðnað.

„Laxeldi í sjókví er mengandi starfsemi og þess vegna þarf að sækja um sérstakt leyfi hjá Umhverfisstofnun þar sem þetta er sérstaklega tilgreint,“ benti Jón Þór á og velti fyrir sér hvernig væri hægt að verðleggja íslenska náttúru. Hann sagði það firru að halda því fram að hér á landi sé sterkasta löggjöfin varðandi fiskeldi.

„Það er gullgrafarastríð á Íslandi, menn keppast um að fá leyfi ókeypis vegna þess að þetta er söluvara.“ sagði Jón Þór.

Jón sagði frumvarp Kristjáns Þórs sjávarútvegsráðherra, um ýmsar breytingar á lögum um fiskeldi sem samþykkt var í mars, vera hrákasmíði. Ef Alþingi hefði viljað sátt þá hefði átt að vanda betur. Jón segir menn vilja vaða áfram þrátt fyrir ótalmarga þætti sem séu enn órannsakaðir „Við vitum til að mynda ekki hvernig áhrif þetta mun hafa á fuglalífið.“

Jón Þór segir Einar fara með rangt mál varðandi staðbundin áhrif og bendir á að regnbogasilungar sem sluppu úr kvíum á Vestfjörðum hafi veiðst um allt land árið 2016.

Jón Þór segir áhrifin ekki vera staðbundin og bendir á að regnbogasilungar sem sluppu úr skjókvíum á Vestfjörðum hafi veiðst um allt land.
​Land­sam­band veiðifé­laga

Besta land fyrir landeldi

Hafrannsóknastofnun hefur sett á laggir nýja vefsíðu með vöktunarupplýsingum sem má nálgast hér sem má nálgast hér.

Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis- og fiskiræktarsviðs Hafrannsóknarstofnunar, sagði að nauðsynlegt væri að vernda íslenska nytjastofna en einnig gæta hagsmuna landsins og atvinnuvega. Hann flutti erindi fyrir hönd vísindasamfélagsins

„Vöktum og tilraunir á yfirstandandi ári og næstu árum muni betur varpa ljósi á forsendur til endurskoðunar,“ sagði Ragnar.

Ragnar segir nokkra kosti á Íslandi fyrir landeldi, það er að segja fiskeldi á landi, og fullyrðir að Ísland sé með besta landsvæði í heimi fyrir landeldi, hér séu vatnsmiklar borholur og hreint vatn án smitefna og hægt væri að stjórna jöfnu hitastigi í kvíum allt árið. Hann segir að landeldi muni aukast til muna í framtíðinni.

„Vöktum og tilraunir á yfirstandandi ári og næstu árum muni betur varpa ljósi á forsendur til endurskoðunar.“
Hafrannsóknastofnun

Eftirlit með fiskeldi aukið

Aukið fjármagn til að bæta stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi og lagfæring á fjármögnun Hafrannsóknastofnunar eru á meðal áherslumála fjárlagafrumvarpsins, á málefnasviði Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, sem kynnt var í september.

Hjalti Andrason, upplýsingafulltrúi Matvælastofnunar, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að einnig standi til að auka fjármagn til MAST til að bæta eftirlit.

Á síðasta ári var einn starfandi eftirlitsmaður en í dag eru tveir starfsmenn, auk tveggja dýralækna sem fylgjast með fisksjúkdómum, einn í fullu starfi og einn í hlutastarfi.

Elvars Arnar Friðrikssonar sem situr í stjórn North Atlantic Salmon Fund (NASF) á Íslandi hefur gagnrýnt Matvælastofnun og sagt það morgunljóst að stofnunin sé á engan hátt í stakk búin til þess að hafa eftirlit með fiskeldisiðnaðinum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hafa báðir sagt að laxeldi sé komið til að vera og að um sé að ræða gríðarlega mikilvægan atvinnuveg fyrir Vest- og Austfirðinga.

„Við þurfum hins vegar að passa mjög vel upp á villta laxastofna sem eru mjög mikilvægir líffræðilega og þróunarfræðilega séð og ólíkir norska eldislaxinum. Þetta er spurning um langtímaáhrif á erfðafræði íslenska laxins og við megum ekki gleyma að laxveiði er gríðarlega efnahagslega mikilvæg víða um land,“ sagði Guðmundur í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið í fyrra.