„Ekki nokkur einstaklingur sem ég þekki sem byrjaði að reykja því í boði voru mentól-sígarettur. Nei, það eru ekki unglingarnir sem flykjast í mentól-sígarettur. Það eru Jónína Jónínudóttir og Dóra Dórudóttir sem fara út á svalir í sínar gæðastundir í saumaklúbbnum með capri bláum.“ sagði Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í kvöld um frumvarp heilbrigðisráðherra um tóbaksvarnir.
Í frumvarpinu, sem er innleiðing frá EES, er tekið á mörgum þáttum er varða tóbaksnotkun, en einn þeirra eru sérstakar bragðtegundir og þeirra á meðal er mentól-bragð.
Í ræðu sinni um málið í kvöld sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra að markmið þess væir meðal annars að koma í veg fyrir og vinna gegn tóbaksnotkun ungs fólks, og því væru bragðefnin tekin fyrir því þau höfði oft til ungs fólks.
Þá sagði hann að það væru til rannsóknir sem sýndu fram á það að einkennandi bragð af sígarettum hefðu áhrif, sérstaklega á yngra fólk.
Hildur svaraði Willum og sagði að um væri að ræða „sýndarlýðheilsuaðgerð“ sem væri algjörlega órökstudd. Hún benti þó á að hún hefði sjálf aldrei reykt mentól-sígarettur.
Í samtali við Fréttablaðið segir Hildur það stinga í stúf að mentól bragð sé sett í sama hatt og önnur brögð eins og til dæmis sælgætisbragð.
„Ég held að capri blár sé ekki stærsta meinsemdin gangvart börnum,“ segir hún og bendir á að næst fari málið til velferðarnefndar og þar vill hún að þetta verði skoðað sérstaklega.
„Heilt yfir skil ég frumvarpið,“ segir Hildur sem bætir við að hún vilji að minnsta kosti að mentól-bragð verði tekið af listanum. „Þetta mun gera fullt af Jónínum lífið leitt sem ætla að fá sér sína mentól-sígó á svölunum,“ segir hún og hlær