Í gær fór fram málflutningur í Hæstarétti í máli sambúðarfólks gegn ÍL-sjóði vegna uppgreiðslugjalds sem Íbúðalánasjóður innheimti þegar þau greiddu upp lán sitt hjá sjóðnum.

Staðfest hefur verið á öllum dómstigum að uppgreiðslugjaldið var innheimt í trássi við lög um neytendalán vegna þess að í skuldabréfi var engin skýring á því hvernig fjárhæð gjaldsins skyldi reiknuð.

Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að brot sjóðsins á lögum um neytendalán skyldu engar afleiðingar hafa fyrir sjóðinn. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu.

Hæstiréttur samþykkti að taka málið fyrir. Bendir það til þess að réttinum þyki niðurstaðan geta verið fordæmisgefandi eða haft verulega samfélagslega þýðingu.

Í flestum skuldabréfum Íbúða­lána­sjóðs voru skilmálar þar sem fram kom ákvæði um útreikning uppgreiðslugjalds og hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að í þeim tilfellum sé innheimta uppgreiðslugjaldsins lögmæt.

Á tilteknu tímabili vantaði hins vegar lýsingu á útreikningi uppgreiðslugjalds í skuldabréf Íbúða­lána­sjóðs og skuldabréfið sem málið snýst um var einmitt gefið út á því tímabili.

Við réttarhaldið í gær kom fram að búið er að stefna ÍL-sjóði í 15 til 17 málum þar sem þennan skilmála vantar í skuldabréfin.

Einnig kom fram að ÍL-sjóður viðurkennir að skilmálann vanti í skuldabréfin en hefur ekki hugmynd um hvers vegna svo er, hvernig það gerðist eða yfir hve langt tímabil skuldabréf sjóðsins voru án skýringa á útreikningi uppgreiðslugjalds.

Málaferlin hafa nú staðið í á fjórða ár án þess að ÍL-sjóður hafi komist til botns í þessu máli.

Að loknum málflutningi var málið dómtekið og ætti dómur að falla innan mánaðar.