Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir undirstrikaði að Sjálfstæðisflokkurinn væri enn þá stærsti flokkurinn í Reykjavík þrátt fyrir talsvert verra gengi en í síðustu kosningum. Þá taldi hún fall meirihlutans í annað sinn vera skýra kröfu um breytingar. Í útvarpsþætti Sprengisands á Bylgjunni mættu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra, til að ræða niðurstöður sveitastjórnarkosninga sem fram fóru í gær.

Í þættinum skiptust Áslaug og Logi á skotum um gengi flokka þeirra í nýafstöðnum kosningum, en bæði voru þó sammála um að Framsóknarflokkurinn hafi verið sigurvegari kosninganna heilt yfir. Þá vörðu gestir stórum hluta þáttarins tíma í að túlka niðurstöður kosninganna í Reykjavík. Áslaug taldi, sem fyrr segir, skýrt að Samfylkingin ætti ekki koma að næstu borgarstjórn í ljósi þess að meirihlutinn hafi fallið í annað sinn.

Þessu var Logi Einarsson ósammála og minnti á að þeir flokkar sem talað hafa gegn sýn Samfylkingarinnar á skipulags- og samgöngumál í borginni hafi ýmist þurrkast út eða misst talsvert fylgi. Þetta taldi Áslaug vera einkennilega söguskýringu á niðurstöðum kosninganna. Þá taldi Logi það myndi vera afar sorglegt ef undið væri ofan þeim miklu breytingum og vinnu sem Samfylkingin hefur leitt síðastliðinn tólf ár í borgarstjórn.

Katrín Jakobsdóttir tók undir með Loga að ekki væri einsýnt hvora áttina næsti meirihluti hætti að halla, til vinstri eða hægri, en tók ekki frekari afstöðu í snörpum skoðanaskiptum Áslaugar og Loga. Þá kvaðst Katrín vera ánægð með að Vinstri grænir hafi haldið sínum manni inn í borginni en viðurkenndi að það væru ákveðin vonbrigði að niðurstöðurnar endurspegluðu ekki gengi flokksins í Alþingiskosningunum í fyrra.