Toll­verðir fundu kanna­bis­fræ í tösku ferða­manns við komuna í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­sonar í gær. Fræin voru í tveimur boxum og kvaðst við­komandi hafa keypt þau í Amsterdam í Hollandi. Hann hafi ekki vitað að slíkur inn­flutningur væri ó­lög­legur hér á landi og af­salaði sér fræjunum til eyðingar.

Þetta kemur fram í til­kynningu lög­reglunnar á Suður­nesjum. Töluvert ann­ríki hefur verið hjá þeim síðustu daga.

Öku­maður grunaður um fíkni­efna­akstur var tekinn úr um­ferð í nótt og var grunurinn stað­festur með sýna­töku. Þá var hann með tól til kanna­bis­vinnslu í bif­reið sinni og poka af meintu kanna­bis­efni.

Í fyrra­dag barst lög­reglunni á Suður­nesjum til­kynning vegna er­lends ferða­manns sem hafði týnt dóttur sinni við gos­stöðvarnar við Fagra­dals­fjall. Lög­reglan mætti á vett­vang og fannst stúlkan heil á húfi um 600 metra frá þeim stað sem feðginin höfðu orðið við­skila á.

Tvö vinnu­slys urðu í um­dæmi lög­reglunnar á Suður­nesjum í vikunni. Annað var í fisk­verkunar­fyrir­tæki í Grinda­vík þar sem starfs­maður skarst á hendi í flökunar­vél. Hann var fluttur í sjúkra­bif­reið á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja, HSS, þar sem skurðurinn var saumaður saman.

Þá féll eig­andi líkams­ræktar­stöðvar úr stiga þegar hann var að vinna að lag­færingum. Við­komandi fann til eymsla og var fluttur með sjúkra­bif­reið á HSS.