Héraðs­dómur Reykja­ness hefur dæmt karl­mann í sex mánaða fangelsi fyrir inn­flutning á tölu­verðu magni af fíkni­efnum og lyf­seðils­skyldum lyfjum. Maðurinn var meðal annars tekinn með nokkurt magn heróíns.

Maðurinn var stöðvaður af toll­gæslunni á Kefla­víkur­flug­velli þann 5. septem­ber síðast­liðinn eftir komuna frá Gdansk í Pól­landi. Efnin faldi maðurinn innan­klæða og í far­angri sínum.

Um var að ræða 76,66 grömm af heróíni, 13,9 grömm af Ketador, 1.533 stykki af Oxyconton, 40 stykki af Contal­gin Uno, 20 stykki af Fentanyl Acta­vis plástrum, 335,5 stykki af Met­hylp­heni­date Sandoz-töflum, 10 stykki af morfín­töflum, 330 stykki af Rivotril-töflum og 168 stykki af Ste­solid-töflum.

Í á­kæru kemur fram að efnin hafi verið ætluð til sölu­dreifingar hér á landi í á­góða­skyni. Maðurinn játaði sök fyrir dómi.

Annar maður var á­kærður í tengslum við málið, en ekki hefur verið dæmt í máli hans eftir því sem best er vitað.

Í niður­stöðu dómara er sér­stak­lega bent á magn heróíns sem maðurinn flutti til landsins. Tekið er fram að á árunum 2011 til 2019 hafi lög­regla og toll­gæsla sam­tals lagt hald á 38 grömm af heróíni. Flutti maðurinn því til landsins rétt tvö­falt það magn. Bent er á að heróín sé mjög á­vana­bindandi og hættu­legt fíkni­efni eins og mörg þeirra lyfja sem maðurinn flutti til landsins.

Maðurinn var sem fyrr segir dæmdur í sex mánaða fangelsi, en gæslu­varð­hald frá 6. septem­ber til 13. nóvember er dregið frá refsingunni. Þá var manninum gert að greiða laun og aksturs­kostnað verjanda síns, 845 þúsund krónur. Þá var honum gert að greiða tæpa hálfa milljón í annan sakar­kostnað. Kostnaður vegna túlka­þjónustu, rúmar 60 þúsund krónur, greiðist úr ríkis­sjóði.