Héraðssaksóknari hefur ákært nígerískan karlmann fyrir stórfellt fíkniefnabrot, með því að hafa flutt rúm 830 grömm af kókaíni til landsins, ætluðu til sölu hér á landi og í ágóðaskyni.
Maðurinn var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli í nóvember síðastliðnum, en hann var að koma úr farþegaflugi frá París í Frakklandi.
Efnin flutti maðurinn innvortis og mun magn þetta vera með því allra mesta sem ein manneskja hefur orðið uppvís að því að flytja til landsins með þeim hætti í einni ferð.
Læknir sá pakkningarnar á rönktenmynd
Samkvæmt upplýsingum blaðsins var maðurinn fluttur á sjúkrahús þar sem röntgenmyndir voru teknar af líkama hans og á þeim taldi læknir sig sjá á bilinu 40 til 50 pakka. Við nánari talningu komu 39 pakkningar í ljós.
Líklegast er talið að maðurinn hafi gleypt efnin innpökkuð, með það fyrir augum að skila þeim af sér gegnum meltingarkerfið. Um var að ræða kókaín af styrkleika á bilinu 49 til 52 prósent.
Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn, en málið hefur þegar verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness.
Auk þess að krefjast refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar er gerð krafa um að efnin verði gerð upptæk auk Samsung-farsíma sem maðurinn hafði á sér.