Murray Hooper, 76 ára fangi á dauðadeild í Arizona í Bandaríkjunum, var tekinn af lífi í gærkvöldi, 42 árum eftir að hann skaut tvo einstaklinga til bana og særði þann þriðja. Þrír fangar hafa nú verið teknir af lífi í Arizona á þessu ári eftir að átta ára hlé var gert á aftökum í ríkinu.
AP greinir frá því að verjendur Hooper hafi reynt fram á síðustu stundu að fá aftökunni frestað en án árangurs. Hann var sakfelldur fyrir morð á William Redmond og tengdamóður hans Helen Phelps árið 1980. Þá skaut hann eiginkonu Williams, Marilyn, í höfuðið en hún lifði árásina af.
Verjendur Hoopers fóru fram á að aftökunni yrði frestað í ljósi nýrra upplýsinga sem komu fram fyrir skemmstu. Héldu þeir því fram að Marilyn hefði á sínum tíma ekki getað borið kennsl á Hooper þegar hún skoðaði myndir af honum og fleiri einstaklingum sem lágu undir grun í málinu. Þessum upplýsingum hefði lögregla haldið frá Hooper á sínum tíma.
Saksóknar héldu því þó fram að engin slík sakbending hefði farið fram og tóku dómstólar undir það.
Hooper hélt alla tíð fram sakleysi sínu í málinu og bentu verjendur hans á að engin bein sönnunargögn tengdu hann við málið.