Frank Atwood, 66 ára fangi á dauða­deild í Arizona í Banda­ríkjunum, var tekinn af lífi í gær vegna morðs sem hann framdi árið 1984.

Frank var sak­felldur fyrir morð á átta ára stúlku, Vicki Lyn­ne Hoskin­son. Hún hvarf spor­laust í septem­ber 1984 eftir að hún fór á reið­hjóli sínu að póst­leggja af­mælis­kort til frænku sinnar. Líkams­leifar Vicky fundust sjö mánuðum síðar, en ekki reyndist unnt að úr­skurða um dánar­or­sök.

Fram­burður vitna leiddi til þess að Frank var hand­tekinn og þá fundust sönnunar­gögn í bif­reið hans sem bendluðu hann við ránið og morðið á stúlkunni. Frank var sak­felldur árið 1987 og hafði hann setið á dauða­deild þar til hann var líf­látinn í gær.

Debbie Carl­son, móðir Vicky, ræddi við fjöl­miðla eftir að Frank var úr­skurðaður látinn. Sagði hún að fjöl­skylda hennar hefði beðið í tæp 38 ár eftir að fá rétt­lætinu full­nægt í málinu. „Vicky var fjörug stúlka með smitandi hlátur og bros sem gat brætt hjarta allra sem hún hitti,“ sagði hún.