Frank Atwood, 66 ára fangi á dauðadeild í Arizona í Bandaríkjunum, var tekinn af lífi í gær vegna morðs sem hann framdi árið 1984.
Frank var sakfelldur fyrir morð á átta ára stúlku, Vicki Lynne Hoskinson. Hún hvarf sporlaust í september 1984 eftir að hún fór á reiðhjóli sínu að póstleggja afmæliskort til frænku sinnar. Líkamsleifar Vicky fundust sjö mánuðum síðar, en ekki reyndist unnt að úrskurða um dánarorsök.
Framburður vitna leiddi til þess að Frank var handtekinn og þá fundust sönnunargögn í bifreið hans sem bendluðu hann við ránið og morðið á stúlkunni. Frank var sakfelldur árið 1987 og hafði hann setið á dauðadeild þar til hann var líflátinn í gær.
Debbie Carlson, móðir Vicky, ræddi við fjölmiðla eftir að Frank var úrskurðaður látinn. Sagði hún að fjölskylda hennar hefði beðið í tæp 38 ár eftir að fá réttlætinu fullnægt í málinu. „Vicky var fjörug stúlka með smitandi hlátur og bros sem gat brætt hjarta allra sem hún hitti,“ sagði hún.