Clarence Dixon, 66 ára fangi á dauðadeild í Arizona í Bandaríkjunum, var tekinn af lífi í gærkvöldi. Þetta er fyrsta aftakan sem yfirvöld í Arizona framkvæma í tæp átta ár. Dixon var dæmdur til dauða fyrir morðið á hinni 21 árs gömlu Deana Bowdoin árið 1978.
Verjendur Dixon reyndu allt fram á síðustu stundu að fá aftökunni frestað en án árangurs. Reyndu þeir að færa rök fyrir því að Dixon væri með þroskaskerðingu og hefði engan skilning á því hvers vegna yfirvöld vildu taka hann af lífi.
Dixon var þegar að afplána lífstíðarfangelsisdóm fyrir nauðgun þegar spjótin beindust að honum í rannsókn lögreglu á morðinu á Bowdoin. Hún fannst látin í íbúð sinni í Tempe, úthverfi Phoenix, og leiddi rannsókn lögreglu í ljós að henni hafði verið nauðgað áður en hún var stungin til bana.
Aftakan í gær var sú fyrsta í Arizona síðan í júlí 2014 þegar Joseph Wood var tekinn af lífi fyrir morð á fyrrverandi unnustu sinni og föður hennar.
Í júlí næstkomandi stendur til að taka annan fanga af lífi í Arizona, Frank Atwood að nafni, en hann var sakfelldur fyrir morð á átta ára stúlku, Vicki Lynne Hoskinson, árið 1984.