Ökumaður á Suðurlandi situr uppi með 210 þúsund króna sekt og sviptingu ökuréttar í einn mánuð og þrjá punkta á ökuferilsskrá eftir að hann var tekinn á 155 kílómetra hraða á Mýrdalssandi. Leyfður hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Lögreglan á Suðurlandi kærði níu ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku.

Annar ökumaður var stöðvaður á 140 kílómetra hraða á Suðurlandsvegi í vestanverðu umdæminu þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Sá var að flýta sér í skýrslutöku hjá lögreglu á Selfossi. Hann kláraði mál sín við lögreglumenn á vettvangi og mætti tímanlega, um 10 mínútum fyrir boðaðan tíma.

Þriðji ökumaðurinn sem var stöðvaður í vikunni reyndist þegar sviptur ökuréttindum vegna fyrri brota. Hann var í stöðvaður nálægt bænum Skál í Vestur-Skaftafellssýslu og þurfti að bíða eftir öðrum bílstjóra áður en hann fékk að halda leiðar sinnar.

Fjórði ökumaðurinn var stöðvaðir við útsýnispall í Eldhrauni en hann reyndist vera undir áhrifum kannabis. Mál hans er í hefðbundnum farvegi að sögn lögreglu.

Bíll valt út af vegi á mótum Suðurlandsvegar og Hoffellsvegar vegna hálku þann 20. nóvember síðastliðinn. Ökumaður slapp með lítilsháttar áverka.