Að mati almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er staða faraldursins hér á landi varhugaverð og boðað er til fundar í dag.

Fimm Covid-19 smit greindust hér á landi í fyrradag. Öll voru smitin utan sóttkvíar og þrír þeirra smituðu voru fullbólusettir. Hluta smitanna mátti rekja til skemmtanalífsins í borginni líkt og í upphafi þriðju bylgju faraldursins.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að tekin hafi verið áhætta er ákveðið var að hætta að skima bólusetta fyrir veirunni á landamærunum.

„Meðan við vorum að skima bólusetta þegar þeir komu inn í landið voru 0,1 prósent af þeim smitaðir, það þýðir að ef þú færð inn í landið upp undir tíu þúsund bólusetta, þá myndir þú reikna með því að fá svona tíu manns bæði bólusetta og smitaða,“ segir Kári.

„1. júlí var tekin meðvituð ákvörðun sem byggði á því að meta annars vegar sóttvarnir og hins vegar aðrar þarfir samfélagsins, og ég held að það hafi ekkert verið neitt annað í spilunum en að gera þetta,“ segir Kári. Hann sé viss um að sóttvarnayfirvöld séu á tánum varðandi skimanir á landamærum og grípi til hertra aðgerða ef þurfi. Stórt hópsmit sé ólíklegt enda stór hluti þjóðarinnar fullbólusettur.

„Ég held að við eigum öll að vera tiltölulega varkár þangað til heimurinn hefur verið meira bólusettur en hann er í dag,“ segir Kári. Með bólusetningu minnki bæði líkur á að fólk smitist og á því að það verði mikið veikt ef það smitist.

„Það eru alls konar ástæður fyrir því að fara sjaldnar á barinn og þær hafa ekki allar með Covid-19 að gera, þetta er spurning um það hvernig maður hagar sér í stórum hópi í litlu plássi,“ svarar Kári, spurður hvort að með varkárni hann eigi til dæmis við færri ferðir á barinn eða örari handþvott.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kvaðst í gær íhuga hertar aðgerðir. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist hvorki hafa fengið nýtt minnisblað frá sóttvarnalækni né eiga von á því.