Brasilísk kona á þrítugsaldri sætir nú gæsluvarðhaldi eftir að hafa reynt að smygla 37 pakkningum af kókaíni til landsins í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. 

Konan var að koma frá Madrid á Spáni þegar tollgæslan stöðvaði hana í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og handtók lögreglan á Suðurnesjum hana í kjölfarið og fór með hana á lögreglustöð. 

Þar skilaði hún af sér efnunum sem hún hafði komið fyrir í leggöngum, maga og meltingarvegi. 

Samtals var um að ræða 400  grömm af kókaíni. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst hún hafa átt að fá 7000 evrur eða tæplega eina milljón íslenskra króna fyrir flutninginn.