Karl­maður sem grunaður er um heimilis­of­beldi gagn­vart sam­býlis­konu sinni og dóttur hennar hefur verið úr­skurðaður í fjögurra vikna gæslu­varð­hald.

Lands­réttur stað­festi í gær úr­skurð Héraðs­dóms Reykja­ness um fjögurra vikna gæslu­varð­hald yfir manninum en hann er grunaður um að hafa rofið skil­yrði skil­orðs­bundins dóms sem hann hlaut árið 2019 fyrir líkams­á­rás á þá­verandi sam­býlis­konu sína og í­trekuð brot gegn nálgunar­banni.

Í greinar­gerð lög­reglu með kröfu um gæslu­varð­hald kemur fram að henni hafi borist að­stoðar­beiðni frá barna­vernd vegna heimilis­of­beldis. Barna­vernd hafi verið til­kynnt um málið eftir að stúlka á grunn­skóla­aldri hafi greint frá of­beldi mannsins í skólanum. Hún hafi lýst því hvernig maðurinn legði hendur á móður hennar og beitti þær mæðgur báðar and­legu of­beldi.

Í annarri til­kynningu sem barna­vernd barst meðan mæðgurnar dvöldu í Kvenna­at­hvarfinu, hafi komið fram að móðirin hafi við komuna þangað verið raun­veru­lega hrædd um líf sitt og að í sam­tali við stúlkuna í síðustu viku hafi „komið fram á­rétting hennar og nánari lýsingar á miklu og lang­varandi of­beldi, ógnar­stjórn og einnig líf­láts­hótunum af hálfu varnar­aðila, bæði í garð móður hennar og hennar sjálfrar. Enn fremur að hún hafi greint frá því að hún hafi verið tekin í gegn er heim hafi komið fyrir að ræða við Barna­vernd og að hún þyrði nú ekki að fara heim og mæta þar varnar­aðila. Stúlkan hafi kvaðst vera hrædd við varnar­aðila og raun­veru­lega hrædd um líf sitt vegna hans.“

Maðurinn var hand­tekinn eftir að framan­greind að­stoðar­beiðni barna­verndar barst lög­reglu. Var maðurinn úr­skurðaður í fjögurra vikna gæslu­varð­hald á þeim grund­velli að lík­legt væri að hann héldi brotum á­fram væri hann frjáls ferða sinna.

Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir sams­konar brot gegn þá­verandi sam­býlis­konu sinni árið 2017. Í úr­skurði héraðs­dóms Reykja­ness kemur einnig fram að annað mál gegn manninum sé til með­ferðar í refsi­vörslu­kerfinu sem varði meint of­beldi gagn­vart opin­berum starfs­manni.

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi eða þekkir til einhvers sem hefur orðið fyrir ofbeldi er hægt að óska eftir aðstoð með því að hringja í neyðarlínuna 112 eða óska eftir netspjalli á vefsíðu Neyðarlínunnar 112.is. Einnig er hægt að hringja í lögreglu á viðeigandi landsvæði eða senda lögreglu skilaboð á Fecebooksíðum lögreglunnar og lögregla hefur samband til baka. Þá er Kvennaatkvarfið með neyðarnúmerið 561-1205 sem er opið allan sólarhringinn. Nánari upplýsingar um aðstoð til þolenda má finna á vef heilsugæslunnar.