Teitur Guð­­munds­­son, for­­stjóri Heilsu­verndar, var í gær dæmdur til fjögurra mánaða skil­orðs­bundins fangelsis til tveggja ára fyrir skatt­­svik. Honum var jafn­framt gert að greiða rúm­­lega fimm­tán milljón krónur í sekt á næstu fjórum vikum ellegar sæta fangelsis­vist í 240 daga.

Teitur birti færslu á Face­book-síðu sinni í gær­kvöldi þar sem hann tjáir sig um málið sem hann segir eiga rætur sínar að rekja til sprota­fyrir­tækis sem hann tók þátt í að fjár­magna.

„Fyrir 9 árum tók ég þátt í að fjár­magna sprota­fyrir­tæki í aug­lýsinga­gerð og var skráður sem fram­kvæmda­stjóri fé­lagsins. Ég hef í gær hlotið dóm vegna að­komu minnar að því. Ég var aldrei starfs­maður þess og þáði hvorki laun né aðra fjár­muni frá fé­laginu. Reksturinn gekk ekki upp og var fé­lagið tekið til gjald­þrota­skipta 21. októ­ber 2015,“ skrifar Teitur.

Hann var á­kærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðis­auka­skatts­skýrslum fé­lagsins, brotið lög um bók­hald, van­rækt að geyma bók­halds­­gögn og skjöl sem tengdust rekstrinum með full­­nægjandi hætti og peninga­þvott með því að nýta á­vinning af virðis­auka­skatts­brotinu, meðal annars í eigin þágu. Var hann þó sýknaður af á­kæru­liðum er varðar peninga­þvætti og að hafa nýtt á­vinninginn í eigin þágu.

Að sögn Teits lá fyrir við lok rekstrar að van­skil voru á opin­berum gjöldum og segist hann hafa axlað á­byrgð á því með því að láta fé­laginu í té við­bótar­fjár­magn.

„Þá gerði ég upp van­skil og fékk stað­festingu á því frá inn­heimtu­manni ríkis­sjóðs áður en fé­lagið var lýst gjald­þrota. Ég taldi mig hafa greitt það sem mér bar. Þá tók ég það í­trekað fram, að kæmi í ljós við nánari rann­sókn að skuldin væri hærri en sú fjár­hæð sem ég hafði þegar greitt, þá myndi ég greiða þá skuld að fullu, sem ég hef gert,“ skrifar hann.

Teitur segir málið hafa verið honum erfitt og lýsa fjöl­margir vinir hans og kunningjar yfir stuðningi á Face­book.

„Þetta mál hefur verið mér þung­bært, en það er léttir að því sé nú lokið. Um ný­liðin ára­mót voru gerðar breytingar á stjórn­skipun Heilsu­verndar á þá leið að ég ber ekki lengur á­byrgð á dag­legum rekstri. Eftir sem áður mun ég koma að upp­byggingu og eftir­fylgni þeirra fjöl­mörgu verk­efna sem eru á verk­sviði fé­lagsins og tengdra fé­laga.“