Teitur Björn Einarsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar. Um er að ræða nýja stöðu og eru nú aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar þrír talsins.

Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag samkvæmt dagskrá ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt tilkynningu á vef Stjórnarráðsins mun Teitur Björn meðal annars sinna verkefnum á sviði sjálfbærni og þjóðaröryggismála auk þess að vinna að samhæfingu mála ásamt öðrum aðstoðarmönnum.

Varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Teitur Björn hefur áður starfað sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Hann hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og er varaþingmaður flokksins.

Teitur er lærður lögmaður og starfaði sem slíkur hjá Íslensku lögfræðistofunni, LOGOS og OPUS.

Aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar eru nú þrír talsins; Auk Teits er Henný Hinz er aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftslagsmála og Dagný Jónsdóttir aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar um samhæfingu mála.