Mælingar sýna að íshellan í Grímsvötnum er fari að síga, sem er vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum. Þetta kom fram í tilkynningu á heimasíðu Veðurstofunnar. Samkvæmt henni fundaði Vísindaráð almannavarna um stöðu mála í Grímsvötnum fyrr í dag.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir það geta tekið tíma að koma í ljóst hvort hlaup sé að hefjast. Teiknin sem nú sjást séu þó af því tagi sem gjarnan boða hlaup. „Við sjáum sig á íshellunni, lækkun á yfirborði á Grímsvatni sjálfu, sem er stöðuvatnið ofan í öskjunni á Grímsvötnum. Ef það flæðir út úr henni og vatnið finnur sér leið undan ísnum þá tæmist hluti af Grímsvötnum, vatnið flæðir niður og kemur síðan neðan við endann á skriðjöklinum. Þetta getur tekið nokkra daga, jafnvel viku. Þá eykst bara vatnslagið, stundum mjög mikið.

Þorvaldur segir að eins og er séu engin bein merki um að eldgos sé í vændum og bendir á að Grímsvatnahlaup þurfi ekki endilega að leiða til goss. Í frétt Veðurstofunnar kemur fram a‘ árin 1922, 1934 og 2004 hafi þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypt af stað gosum.

Veðurstofan er með gasmæla við upptök Gígjukvíslar sem gætu gefið vísbendingar um hvort hlaupvatn sé þar í farveginum. Íshellan hefur nú sigið um tæpa 60 sentimentra á síðustu dögum og hraðinn á siginu hefur aukist síðasta sólarhringinn.