Samtök iðnaðarins hafa sent sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu bréf og skorað á þau að taka til skoðunar að gatnagerð á þeirra vegum fari fram utan álagstíma á daginn.: „Eins og verklag umræddra framkvæmda hefur verið í sumar þá hefur fræsun og malbikun að meginstefnu verið framkvæmd á dagvinnutíma á virkum dögum með tilheyrandi umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í bréfi Samtaka iðnaðarins (SI).

Aðildarfyrirtæki samtakanna hafi vakið athygli þeirra á því óhagræði sem þær tafir hafa haft á starfsemi fyrirtækja. „Sér í lagi fyrirtæki sem grundvalla starfsemi sína á að koma til skila vörum eða sækja vörur, s.s. afhending á aðföngum eða sorphirða svo dæmi séu tekin.“

Þá segir að framkvæmdaaðilum megi vera ljóst að verulegar umferðartafir séu vegna framkvæmda yfir daginn, sérstaklega á umferðarþungum götum á höfuðborgarsvæðinu. „Ljóst er að þetta felur bæði í sér óhagræði fyrir bæði atvinnulíf og almenning, svo ekki sé talað um umhverfisáhrif, svo sem losun gróðurhúsalofttegunda, þegar bílar eru langtímum saman í umferðarteppu.“

Til viðbótar þessu segir í bréfi SI að samtökunum hafi borist ábendingar um að víða sé merkingum og viðvörunum um framkvæmdir, hjáleiðir og öðrum upplýsingum áfátt. „Samtökin telja verulega mikilvægt að upplýsingaflæði, aðvaranir og leiðbeiningar séu með skýrum hætti og aðgengilegar, til að varna álagi kringum framkvæmdasvæði og liðka fyrir umferð,“ segir í bréfi SI.

„Í ljósi þessa skora Samtök iðnaðarins á sveitarfélög að taka til skoðunar að þessar framkvæmdir á þeirra vegum fari fram utan álagstíma á daginn, svo sem kvöldin og nóttunni, og þá sér í lagi þessa björtustu daga ársins eins og áður var gert og víða eru dæmi erlendis frá,“ leggja samtökin til. „Má gefa sér að þrátt fyrir að slíkar breytingar kunni að fela í sér aukinn kostnað þá er líklegt að samfélagslegur ábati verði því mun meiri.“

Að endingu er skorað á framkvæmdaaðila að huga að þessum atriðum við fræsingu og malbikun með það að leiðarljósi að lágmarka áhrif þeirra framkvæmda á bæði almenning og atvinnulíf.

Hvorki náðist í borgarstjórann í Reykjavík né bæjarstjórana í Kópavogi og Hafnarfirði við vinnslu þessarar fréttar.