Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz átti í snörpum orðaskiptum við breskan fjölmiðlamann og strunsaði úr viðtali eftir að blaðamaðurinn spurði hann hvers vegna skotárásir væru svona tíðar í Bandaríkjunum. Ted Cruz mætti í gær á bænahald sem haldið var í kjölfar skotárásarinnar sem átti sér stað síðstliðinn þriðjudag í Robb grunnskólanum í bænum Uvalde, í Texas. Þar sem 19 grunnskólabörn og tveir kennarar létu lífið.

Fréttamaður á vegum breska fréttamiðilsins Sky News náði tali af þingmanninum eftir athöfnina og spurði Cruz hvort nú væri runnin upp sú stund þar sem taka þyrfti skotvopnalöggjöfina í landinu til endurskoðunar. Það taldi Cruz ekki vera og sagði að hert skotvopnalöggjöf hefði ekki getað komið í veg fyrir mannskæðu árásina.

Blaðamaðurinn brást við þessum svörum með því að spyrja hvers vegna Bandaríkin skera sig út þessum efnum, hvað lægi að baki svona atburðir svona algengir í Bandaríkjunum.

Í viðtalinu víkur Cruz sér undan því að svara spurningunni og sakaði blaðamanninn um að reka pólitískan áróður og gekk síðan í burtu. Þegar blaðamaðurinn gekk á þingmanninn og spurði hann hvers vegna hann gæti ekki svarað þessari spurningu snéri Cruz sér við og spurði blaðamanninn „hvers vegna svo margir flytji til Bandaríkjanna?“ áður en blaðamanninum gafst tækifæri til að svara sagði Cruz það vera vegna þessa að Bandaríkin eru „frjálsasta, hagsælasta og öruggasta land í heimi.“

Ted Cruz er ötull talsmaður frjálslegrar skotvopnalöggjafar og telur engin tengsl vera á milli mannskæðra skotárása, sem eru algengar í Bandaríkjunum, og mikla skotvopnaeign í Bandaríkjunum. Þá hefur Cruz oft komið í veg fyrir lagabreytingartillögur þingmanna á löggjöfinni í kringum skotvopnaeign í landinu.

Í grein sem birtist á fréttamiðlinum Axios kemur fram að Cruz er efstur á lista þingmanna sem þegið hafa fjárstyrki frá þrýstihópum sem vilja tryggja greitt aðgengi að skotvopnum.

Alls hafa rúmar 57 milljónir króna, eða 442 þúsund Bandaríkjadalir, ratað í kosningasjóði Ted Cruz frá þessum hópum. Þá hafa hópar, á borð við Landsamband byssueigenda í Bandaríkjunum (NRA) varið gríðarlegum fjármunum auglýsingaherferðir gegn mótframbjóðendum Cruz í Texas fylki.