Fjöldi Íslendinga fær högg um næstu áramót er ný lög frá Alþingi um lífeyrissjóði skerða greiðslur frá Tryggingastofnun.

Hálfsjötugur tæknifræðingur hjá Almenna lífeyrissjóðnum, sem hefur greitt í séreignarsjóð frá níunda áratug síðustu aldar, segir nýju löggjöfina munu skerða áætlaðar tekjur hans um 15-20 milljónir á 15 árum. Frádráttur frá almannatryggingum éti upp lífeyri sem hann hefði ella fengið frá Tryggingastofnun. Hann gagnrýnir hve þessar skerðingar komi aftan að mönnum og kynning hafi verið lítil.

Tæknifræðingurinn segist hafa hugleitt að segja upp starfi sínu vegna laganna og fara þegar á eftirlaun. Fleiri sérfræðingar, svo sem læknar, hafi stofnað til séreignar með sama hætti og hann. Ef þeir hætta störfum vegna skerðinganna fylgi því afleiðingar. Kveðst hann ætla að taka út séreignarsjóð þótt það kosti milljónir í hátekjuskatt.

Sigríður Ómarsdóttir, skrifstofustjóri Almenna lífeyrissjóðsins, staðfestir að sjóðurinn hafi undanfarið fengið töluvert af fyrirspurnum frá sjóðfélögum sem margir eigi séreign sem ekki varð til af viðbótariðgjaldi. Sjóðurinn hefur boðað til upplýsingafundar í lok mánaðar.

„Þessar skerðingar hjá Tryggingastofnun eru úr öllu hófi,“ segir Ólafur Ísleifsson hagfræðingur og doktor í lífeyrissjóðsmálum.

Með lagafrumvarpinu verður lögfest að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verður minnst 15,5 prósent af iðgjaldsstofni í stað 12 prósenta nú. Með því eru lögfest samningsákvæði milli aðila vinnumarkaðar.

Í greinargerð segir að áhersla sé á samræmt réttindakerfi á vinnumarkaði og sjálfbært lífeyriskerfi. Því þurfi hver kynslóð að standa undir eigin lífeyrisréttindum. Starfshópur lagði til að aldurstengd ávinnsla réttinda yrði meginreglan í og lífeyrisaldur yrði samræmdur.