Samband íslenskra sveitarfélaga hefur safnað saman ársreikningum 64 af 69 sveitarfélögum fyrir árið 2021, en í þeim sveitarfélögum búa yfir 99 prósent landsmanna.

Samanlagður rekstrarafgangur A hluta var neikvæður um 8,8 milljarða króna. En það er sá hluti rekstrar sveitarfélaga sem stendur undir þjónustu við íbúa og er fjármagnaður með skatttekjum.

Af þeim sveitarfélögum sem skiluðu ársreikningum með miklu tapi skera þrjú stór sveitarfélög sig úr.

Reykjavík með hallarekstur upp á 3,8 milljarða, Hafnarfjörður með 1,5 milljarða og Árborg með 2,1 milljarðs tap á árinu 2021.

Í 18 sveitarfélögum af 64 er staðan sú að útsvarstekjur duga ekki fyrir launum starfsmanna.

Þá var veltufé frá rekstri neikvætt í 15 sveitarfélögum. Það felur í sér að tekjur duga ekki fyrir þjónustu og öðrum rekstrargjöldum. Þar er því ekkert rúm fyrir fjárfestingu eða ný verkefni.

Þar sem fleiri en 1.000 manns búa var reksturinn einna þyngstur í sex sveitarfélögum. Þau eiga það sammerkt að halli síðasta árs var yfir 100 þúsund krónur á hvern íbúa.

Árborg ber höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög sem eru í slíkri stöðu. Þar nam tap síðasta árs 205 þúsund krónum á hvern íbúa, en í sveitarfélaginu búa hátt í 11 þúsund manns. Þar á eftir kemur sveitarfélagið Vogar með 183 þúsund krónur á hvern íbúa.

Skuldir nokkura sveitafélaga.

Hver íbúi í Ísafjarðarbæ ber halla upp á 150 þúsund krónur á síðasta ári, sem er örlítið verri niðurstaða en ársreikningar Húnabyggðar, Seltjarnarness og Hveragerðis sýna.

Nýráðinn bæjarstjóri Árborgar, Fjóla Kristinsdóttir, segir þessa niðurstöðu ekki góða. „Þetta er auðvitað ein ástæða þess að kosningarnar fóru eins og þær fóru og nýtt fólk var fengið að borðinu. Við fundum það mjög sterkt í kosningabaráttunni.“

Fjóla segist rétt vera að ná utan um vandann á sínum fyrstu dögum í starfi. „En það er alveg ljóst að við verðum að snúa þessari þróun við. Árborg getur ekki farið í gegnum mörg svona ár. Það er alveg ljóst. Við höfum verið að rýna þetta með okkar ráðgjöfum frá KPMG og leggja grunn að langtímastefnu í fjármálum.“

Íbúum Árborgar hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár en samkvæmt Fjólu útheimtir slíkur vöxtur heilmikla fjárfestingu í innviðum.

„Það skýrir þennan hallarekstur auðvitað að einhverju leyti. Þessi gríðarlegi vöxtur er ekki bara dýr heldur hefur fjölgun síðustu ára fylgt ákveðið stefnuleysi og skortur á fyrirhyggju. Því þurfum við að breyta.“

Viðsnúningur í rekstri sveitarfélaga býður ekki upp á neina töfralausn að sögn Fjólu. „Þetta mun taka tíma en við verðum að sýna ráðdeild og setja okkur raunhæf markmið.

Þetta er ærið verkefni en um leið mjög spennandi því Árborg er samfélag í sókn og hér eru spennandi hlutir að gerast sem eiga eftir að koma okkur á beinu brautina í rekstrinum. En þá þurfum við líka að halda vel á spöðunum,“ segir Fjóla.

Fjóla Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar.
Mynd/Aðsend