Mun fleiri tann­brot eru að eiga sér stað vegna slysa á raf­hlaupa­hjólum. Út­köll vegna slíkra slysa hafa verið tölu­vert á­berandi og tann­læknirinn Karl Guð­laugs­son sem Morgun­blaðið ræddi við segir á­standið al­var­legt.

„Þetta er bara blá­kald­ur veru­leik­inn. Nán­ast all­ir tann­lækn­ar sem ég hef talað við þekkja dæmi þess að það hafa komið svona til­vik inn á þeirra stofu. Ég er ekki með ná­kvæma töl­fræði en maður sér þetta í mun meiri mæli en áður, og bara al­var­leg tann­brot,“ segir Karl.

Hann seg­ir skemmd­irn­ar og brot­in vera misal­var­leg þó þau séu aldrei minni háttar fyrir fólk. Það getur tekið tannlækna allt frá hálftíma í að gera við brot og allt upp í marga mánuði ef skemmdirnar eru alvarlegar. Í þeim tilvikum þegar tönn springur eða eyðileggst, eða er rótin deyr, þarf að draga tönnina út, setja bráðabirgðapart í bilið og svo nýja tönn seinna. Þá tekur Karl fram að minni brotin geri reynst erfið til lengri tíma og jafnvel meiri truflun en stærri brotin.

„Al­var­legu brot­in eru miklu stærri mál í upp­hafi en svo er gerð var­an­leg viðgerð. En þótt brotið sé minna get­ur það orðið þrálátt verk­efni að laga tönn­ina vegna þess að fyll­ing­ar brotna úr aft­ur og aft­ur. Ef það brotn­ar til að mynda fram­an af bitkanti á fólk það til að gleyma sér og kannski dag­inn eft­ir, eða eft­ir nokkr­ar vik­ur, bít­ur það eitt­hvað hart í sund­ur og fyll­ing­in brotn­ar. Fólk þarf þá sí­fellt að koma í heim­sókn­ir.“

Sérstaklega ömurleg þróun

Karl segir slysin vera algengust hjá ungu fólki á tvítugs- og þrítugsaldri og í langflestum tilvikum má tengja þau við áfengisdrykkju um helgar en flest útköllin berast snemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Karli finnst sorglegt að horfa upp á ungt fólk með heilbrigðar tennur lenda í slíkum óhöppum. Þá segir hann þessa þróun vera mikla synd, sér­stak­lega í ljósi þess að tann­heilsa fólks sé mun betri nú en hún var fyr­ir nokkr­um árum.

„Tanntjón­in og al­var­leiki þeirra eru svo sér­stak­lega öm­ur­leg því þú ert með þessa ungu ein­stak­linga sem eru með all­ar tenn­urn­ar sín­ar strá­heil­ar. Tann­heils­an er orðin svo góð að það eru nán­ast eng­ar skemmd­ir hjá þess­um krökk­um. Bara fal­leg­ar hvít­ar fram­tenn­ur og svo lenda þau beint á and­lit­inu og brjóta þær. Það er grát­legt að fylgj­ast með þessu,“ seg­ir Karl.