Hinn tólf ára gamli Kri­sto­fer Óskar Dor­otu­son hlaut djúpan skurð og tann­brot síðast­liðinn þriðju­dag eftir að búið var að eiga við reið­hjólið hans. Skrúfur höfðu verið losaðar við fram­dekk reiðhjólsins með þeim af­leiðingum að hjólið féll fyrir­vara­laust undan honum þegar hann hjólaði fram af gang­stétt.

„Þetta var al­gert á­fall fyrir hann,“ sagði Dor­ota Adams­dóttir, móðir Kri­sto­fers, í sam­talið við Frétta­blaðið fyrr í dag. Þrátt fyrir að Kri­sto­fer hafi verið nokkuð hvekktur í fyrstu er hann nú orðinn furðu hraustur að sögn móður hans. „Þetta leit samt ekkert vel út þarna á tíma­bili.“

Sauma þurfti fimm spor í höku Kri­sto­fers en í kjöl­farið hlaut hann ör sem læknar telja að hann muni bera ævi­langt. „Hann mun ekki koma til með að gleyma þessu at­viki í bráð,“ bendir Dorota á en bætir þó við að þetta hefði geta verið mun verra.

Sauma þurfti fimm spor sem skildu eftir sig ör sem Kristófer mun bera ævilangt.
Mynd/Aðsend

Hvetur fólk til að ræða við börn sín

Dor­ota vakti at­hygli á slysinu á í­búa­síðu Þor­láks­hafnar þar sem hún vildi vara for­eldra við og hvetja þá til að ræða við börn sín um al­var­leika slíkra hrekkja. „Á­verkarnir eftir svona geta verið mjög al­var­legir, hann slapp blessunar­lega við brot, ó­líkt mörgum öðrum, en nógu slæmt var þetta nú samt,“ bætti Dor­ota við.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem átt hafði verið við reið­hjól Kri­sto­fers en í fyrra skiptið slapp hann ó­meiddur. „Hann sagði okkur frá því þegar það gerðist en það var ekki gert neitt mál úr því þá,“ sagði Dor­ota. „Maður trúði því líka varla að ein­hver myndi gera svona lagað vísvitandi.“

Dor­ota efaðist þó ekki um að skemmdarverk hefðu ollið slysinu á þriðjudaginn. „Þá var maður búin að heyra um þessa hrekki áður en þetta virðist vera ein­hver tíska meðal unglinga.“ Hún telur ekki að ungir krakkar beri á­byrgð á hrekkjunum og bendir á að skrúfurnar séu stífar og það þurfi smá átök til að losa dekkin. „Það eru engir smá­krakkar sem eru að stunda þetta.“

Tilgangslaus hrekkur varð til þess að Kristofer endaði á slysadeild.
Mynd/Aðsend

Til­gangs­laus og hættu­legur grikkur

Dorota segist ekki skilja hvað skemmdar­vörgunum gangi til með grikkjunum. „Það virðist ekki vera neinn til­gangur með þessu og þess vegna er svo mikil­vægt að rætt sé við börn og ung­linga um hvað getur komið fyrir.“

Rann­sókn málsins er í höndum lög­reglunnar á Suður­landi en ljóst er að þetta at­vik er ekki það fyrsta sinnar tegundar þar. „Mér skildist á lög­reglu­þjóni hér á Sel­fossi að dóttir hans hefði lent í svipuðum hrekk og hand­leggs­brotnað í kjöl­farið, svo þetta er ekki alveg nýtt af nálinni á þessum slóðum,“ bætti Dor­ota við.

Á­kveðinn far­aldur virðist vera á á­líka málum en víðs vegar um landið hafa keim­lík skemmdar­verk verið framin á reiðhjólum með svipuðum af­leiðingum. Þó­nokkur at­vik komu upp á Sel­tjarnar­nesi ný­lega, eins og Frétta­blaðið greindi frá, þar sem fram­dekk hjóla höfðu verið losuð af en slíkt getur verið, eins og fram hefur komið, stór­hættu­legt.

Kristofer er að sögn móður sinnar furðuhraustur eftir slysið.
Mynd/Aðsend