For­svars­mönnum Strætó barst kvörtun frá Tönju Sif Hansen sem var úti að ganga með börnum sínum tveimur, sex og átta ára, um þrjú leytið í gær þegar þau komu að bíl­stjóra strætis­vagns í miðjum klíðum að létta af sér fyrir utan vagninn í Skerja­firði.

Þetta stað­festir Guð­mundur Heiðar Helga­son upp­lýsinga­full­trúi Strætó.

„Ég var að heyra um þetta fyrir svona klukku­stund“ segir Guð­mundur Heiðar.

„Þegar við vorum komin fyrir hornið á vagninum blasti við okkur ó­fögur sjón,“ segir Tanja Sif.

Bíl­stjórinn hafi ekki farið leynt með gjörðir sínar og að kyn­færi hans hafi verið sýni­leg. Þá hafi hún og börnin hennar verið í sjokki og hún efist um að þau þori í ein í strætis­vagn eftir at­vikið.

„Ég meina, maðurinn sneri í áttina að hlaupa­stígnum, honum var alveg sama og væntan­lega að bíða eftir að vera gómaður,“ segir Tanja Sif.

Guð­mundur Heiðar segir málið í rann­sókn hjá fyrir­tækinu. „Í stuttu máli er þetta auð­vitað ekki sam­kvæmt starfs­reglum.“

Hann bætir við að hann líti svo á að það sé ekki al­menn skyn­semi að létta af sér á al­manna­færi. Þá sé klósett að­staða fyrir starfs­menn á þessari enda­stöð í Skerja­firði.

Að sögn Guð­mundar sé þetta ó­skiljan­legt og hann hafi verið hálf orð­laus þegar hann las kvörtunina. Þá sé of snemmt að segja til um fram­hald málsins, það sé of nýtt af nálinni.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Guðmundi Heiðari upplýsingafulltrúa Strætó kemur fram að eftir ítarlega skoðun á málinu kom í ljós að umræddur einstaklingur er ekki bílstjóri á vegum Strætó heldur farþegi hans.