„Það er nauðgari í skólanum okkar og þú veist hver það er,“ stóð á miða sem Aela Mans­mann hengdi upp á salerni í Cape Eliza­beth, mennta­skóla í Banda­ríkjunum. Eftir að upp komst að Aela bæri á­byrgð á miðanum var hún vænd um ein­elti og í kjöl­farið vísað tíma­bundið úr skólanum.

Skammast sín fyrir skólann

„Í fullri hrein­skilni þá skammast ég mín fyrir að­gerðir skólans,“ sagði Aela í við­tali við Buzz­feed. Hún lýsti því að hún hefði fengið sig full­sadda á kyn­ferðis­brotum og á­reitni sem við­gengust innan veggja skólans og hafi, á­samt vinum sínum, brugðið til þess ráðs að vekja at­hygli á vanda­málinu með téðum miða.

Miðinn átti að minna nem­endur á fyrri til­felli kyn­ferðis­brota innan skólans og vekja at­hygli á því að engar af­leiðingar virtust fylgja á­sökunum um brotin. Hún tók fram að enginn hafi verið nafn­greindur á miðanum. „Það var ekki verið að vísa á til­tekinn ein­stak­ling, enda um svo marga að ræða að erfitt væri að benda bara á einn.“

Nemendur efndu til mótmæla vegna aðgerða skólans.
Mynd/Aela Mannsman

Yfir­heyrðu nem­endur

Stjórn­endur skólans hófu rann­sókn á miðanum og á nokkurra vikna tíma­bili var fjöldi nem­enda yfir­heyrður vegna málsins. „Þau sögðu okkar að hver sá sem hefði sett upp miðann myndi ekki lenda í neinum vand­ræðum.“

Aela nefndi einnig að hún hefði aldrei heyrt um að neinum nemanda hefði verið refsað vegna á­sakana um kyn­ferðis­of­beldi í skólanum. Þrátt fyrir það fór einn nemandi til skóla­stjórans og sagðist upp­lifa miðann sem ein­elti gegn sér.

„Það ruglar mig svo­lítið þar sem enginn var nafn­greindur á miðanum.“ Þá hafi miðinn enn fremur vísað til fleiri en eins ein­stak­lings. „Þessi manneskja upp­lifði sig sem skot­spónn miðans og í kjöl­farið tók skólinn þá á­kvörðun að vísa mér úr skóla án þess að rann­saka hvers vegna þessari mann­eskju leið þannig.“

Gengu úr tíma í mót­mæla­skyni

Á­samt Aelu var tveimur öðrum nem­endum vísað úr skólanum vegna miðans. Síðast­liðinn mánu­dag gengu fimm­tíu nem­endur úr skólanum í mót­mæla­skyni. „Mark­mið mót­mælanna er að sýna stuðning við þá þol­endur sem þurfa að dvelja á göngum skólans á hverjum degi,“ sagði Aela. Nem­endur mót­mæltu því einnig að þeim hafi verið refsað fyrir að stíga fram.