Talsvert hefur borið á hálkuslysum á bráðamóttöku Landspítalans það sem af er degi.
Mörg slysanna eru enn í vinnslu að sögn Helgu Rósu Másdóttur, deildarstjóra bráðamóttökunnar.
„Þetta eru allskonar verkir, í ökklum, höndum og mjöðmum,“ segir Helga Rósa um áverka þeirra sem eru að koma vegna hálkunnar.
Þá séu sumir með skurði á höfði eftir að hafa dottið aftur fyrir sig.
Rúmlega 60 manns eru nú á bráðamóttökunni að sögn Helgu Rósu en um helmingur þeirra eru sjúklingar sem bíða eftir að leggjast inn á aðrar deildir.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varaði við flughálku á höfuðborgarsvæðinu nú í morgunsárið á Facebook-síðu sinni.
Hún segir ökutæki og starfsmenn borgarinnar sem sjái um söltun á götum hafa átt í erfiðleikum vegna hálkunnar og bað fólk um að fara varlega.