„Það er sannarlega eftirsjá í því að fréttatíminn fari úr opinni dagskrá en ég trúi því að það liggi þarna að baki vandaður undirbúningur,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, um þá ákvörðun Stöðvar 2 að taka fréttir stöðvarinnar úr opinni dagskrá.

„Þessi fréttastofa er náttúrulega búin að vera flaggskip sjálfstæðrar sjónvarpfréttamennsku sem ekki er leidd af ríkinu í áratugi svo þetta eru mikil umskipti,“ segir Hjálmar. Í tilkynningu sem Stöð 2 sendi frá sér í gær segir að fréttir stöðvarinnar hafi verið „hluti af daglegu lífi þjóðarinnar í 34 ár,“ en að á þeim tíma hafi umhverfi fjölmiðla tekið miklum breytingum. Stöð 2 hafi verið leiðandi og ætli að vera það áfram.

Hjálmar segist vel þekkja til þeirra breytinga sem um ræðir og að vönduð fjölmiðlun sé það sem mestu máli skipti. „Þetta umhverfi sem við þekkjum er að breytast og þróunin hefur verið sértaklega hröð síðustu tuttugu ár. Fólk þarf að fara að hugsa þetta upp á nýtt því að þessi hefðbundna leið þar sem fjölmiðlar eru bornir uppi af áskriftargreiðslum og auglýsingum á ekki endilega við rök að styðjast lengur,“ segir hann.

Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjölmiðla Sýnar, segir breytingarnar jákvæðar og að starfsfólk Stöðvar 2 hafi sýnt þeim mikinn skilning. „Ég er búinn að funda með öllu starfsfólki í dag [í gær]og það hafa verið góðir fundir,“ segir hann.

„Við erum ekki að tilkynna niðurskurð eða koma með neikvæð skilaboð til starfsmanna okkar heldur erum við að sækja fram,“ bætir Þórhallur við.

Sunna Kristín Hilmarsdóttir, fréttakona og trúnaðarmaður fréttastofu Stöðvar 2, segir fundinn í gær þar sem starfsfólki voru kynntar breytingarnar hafa farið vel fram en þó hafi starfsfólk ýmsar spurningar. „Þetta eru miklar breytingar en við vorum fullvissuð um það að okkar starf á fréttastofunni breytist ekkert í grunninn,“ segir Sunna.

„Það á ekki að stytta fréttatímann eða segja fólki upp eftir því sem okkur er sagt svo ég verð að trúa því og treysta að að þeir sem eru við stjórnvölinn í fyrirtækinu og taka þessa ákvörðun viti hvað þeir eru að gera,“ bætir Sunna við.

Þórhallur segist meta stöðuna svo að með breytingunum fjölgi áskrifendum stöðvarinnar og að fréttastofan haldi áfram í sókn, en tæplega sjötíu þúsund eru í áskrift að sjónvarpsstöðvum Sýnar. „Við höfum verið að fjölga áskrifendum síðasta árið, hvort sem það er á Stöð 2, Stöð 2 maraþon eða íþróttastöðvunum okkar og við trúum því að sú sókn haldi áfram,“ segir Þórhallur.