Talningu á ónotuðum kjörseðlum í Norðvesturkjördæmi er lokið.
„Þetta stemmir,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, í samtali við Fréttablaðið. Samtals voru 24 þúsund atkvæði send í kjördæmið, 13.905 atkvæði voru greidd of 10.095 ónotuð.
Starfsfólk Sýslumannsins á Vesturlandi töldu atkvæðin ásamt einum starfsmanni yfirkjörstjórnar á meðan þrír nefndarmenn í undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréf fylgdust gaumgæfulega með.
Þau Björn Leví, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir gengu út af skrifstofunni á annarri hæð lögreglustöðvarinnar í Borgarnesi að lokinni talningu um klukkan 12:15 í dag. Þau báru pappakassana með kjörseðlunum aftur niður í kjallarann, fengu starfsmann Sýslumannsins til að rjúfa innsiglið á fangklefanum þar sem allir kjörseðlar Norðvesturkjördæmis eru geymdir, lögðu kassana inn í fangaklefann og lokaði Björn Leví sjálfur dyrunum og innsiglaði fyrrnefndur starfsmaður klefann með tvöföldu innsigli.

Aðspurð segja þau talninguna hafa gengið vel. Þau hafi engar athugasemdir við vinnulag talningarfólksins.
„Það er sérkennilegt að fylgjast með öðru fólki vinna,“ sagði Líneik að lokinni talningu áður en nefndarmenn fóru í hádegismat á Hótel Borgarnesi.
„Þetta var mjög vel gert. Við erum sátt og höfum engar athugasemdir við vinnuna.“
