„Það má vel vera að það sé rétt. En það er bara svo margt fleira en innsiglismálin,“ segir Karl Gauti Hjaltason, spurður um viðbrögð við mati dósents í lögum sem kom fyrir undirbúningskjörnefnd Alþingis í gær og sagði að innsiglismálin ein og sér dygðu ekki til uppkosningar.

Karl Gauti segir mögulegt að átt hafi verið við kjörgögnin og möguleikinn einn og sér dugi til að seinni talningin á sunnudag í Norðvesturkjördæmi sé ónýt og að engu hafandi. Kosningalög hafi að auki verið brotin á fleiri sviðum svo sem með því að umboðsmenn hafi ekki verið boðaðir og ekki skipaðir, kjörbókin ekki undirrituð og meintur ágreiningur um endurtalningu ekki bókaður. Hann telur að öll kurl komi ekki til grafar fyrr en lögregla skili sínum niðurstöðum.

Karl Gauti datt út fyrir Miðflokkinn eftir seinni talninguna. Hann starfaði í 20 ár sem formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, er fyrrverandi sýslumaður og höfundur kosningahandbókar, Mat á vafaatkvæðum, sem hann skrifaði með Gunnari B. Eydal og er enn notuð á öllum talningarstöðum.