Talning ónotaðra kjörseðla er hafin á lögreglustöðinni í Borgarnesi. Hluti nefndarmanna í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa lítur yfir öxl talningarfólksins og fylgist gaumgæfulega með talningunni á skrifstofunni á annarri hæðinni.
Þau Björn Leví Gunnarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir lögðu af stað frá Reykjavík klukkan 8 í morgun og mættu á lögreglustöðina í Borgarnesi upp úr 9. Hinn hluti nefndarinnar leggur svo af stað í bæinn klukkan 10:30 og fer beint á Hótel Borgarnes þar sem talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi fór upphaflega fram.
Þegar Fréttablaðið mætti á lögreglustöðina var Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, mættur ásamt nefndarmönnum, lögreglumönnum og fulltrúum Sýslumannsins á Vesturlandi, til að rjúfa innsiglið á einum fangaklefanum þar sem atkvæðin hafa öll verið geymd. Nefndarmenn staðfestu að ekki var búið að rjúfa innsiglið áður en þau mættu á staðinn.
„Ingi var fenginn hingað til að rjúfa innsiglið á fangaklefanum þar sem öll atkvæði eru geymd,“ útskýrir Þórunn.

Kjörseðlar geymdir í kassa fyrir piña colada
Tíu kassar of ónotuðum kjörseðlum, þ.e. prentuðum seðlum sem ekki voru notaðir í kosningum, voru bornir úr fangaklefanum og upp tvær hæðir af nefndarmönnum og starfsmönnum Sýslumannsins á Vesturlandi. Var hluti kjörseðlanna geymdur í pappakössum sem áður geymdu bjórflöskur og piña colada drykki.
„Þetta er allt bara sjálfbærni,“ sagði starfsmaður Sýslumannsins.
Aðspurð hvort kassarnir væru þungir svöruðu nefndarmenn neitandi: „Þetta er bara góð líkamsrækt,“ sagði Líneik Anna. Spurði þá blaðamaður hvort þetta væri líkamsrækt fyrir lýðræðið og kinkaði Björn Leví kolli.

Ástæðan fyrir talningunni er að athuga hvort misræmi sé á fjöldi notaðra og ónotaðra seðla til þess að ganga úr skugga um að enginn laumuseðill hafi endað á röngum stað.
Seðlarnir eru í 100 seðla búntum fyrir utan eitt búnt sem inniheldur 99 seðla.
„Þeir þurfa að stemma við heildaruppgjör í talningunni,“ útskýrir Þórunn. „Þetta er fyrsta skrefið til að athuga hvort þetta stemmir allt. Við viljum ganga úr skugga um þetta sjálf.“
Bætti þá Björn Leví við: „Við þurfum að tékka í öll box.“
Eftir að kassarnir voru bornir upp var fangaklefinn innsiglaður á ný en þar sitja allir notaðir kjörseðlar Norðvesturkjördæmis.

