Talning ó­notaðra kjör­seðla er hafin á lög­reglu­stöðinni í Borgar­nesi. Hluti nefndar­manna í undir­búnings­nefnd fyrir rann­sókn kjör­bréfa lítur yfir öxl talningar­fólksins og fylgist gaum­gæfu­lega með talningunni á skrif­stofunni á annarri hæðinni.

Þau Björn Leví Gunnars­son, Þórunn Svein­bjarnar­dóttir og Líneik Anna Sæ­vars­dóttir lögðu af stað frá Reykja­vík klukkan 8 í morgun og mættu á lög­reglu­stöðina í Borgar­nesi upp úr 9. Hinn hluti nefndarinnar leggur svo af stað í bæinn klukkan 10:30 og fer beint á Hótel Borgar­nes þar sem talning at­kvæða í Norð­vestur­kjör­dæmi fór upp­haf­lega fram.

Þegar Frétta­blaðið mætti á lög­reglu­stöðina var Ingi Tryggva­son, for­maður yfir­kjör­stjórnar Norð­vestur­kjör­dæmis, mættur á­samt nefndar­mönnum, lög­reglu­mönnum og full­trúum Sýslu­mannsins á Vestur­landi, til að rjúfa inn­siglið á einum fanga­klefanum þar sem at­kvæðin hafa öll verið geymd. Nefndar­menn stað­festu að ekki var búið að rjúfa inn­siglið áður en þau mættu á staðinn.

„Ingi var fenginn hingað til að rjúfa inn­siglið á fanga­klefanum þar sem öll at­kvæði eru geymd,“ út­skýrir Þórunn.

Nefndarmenn báru upp kassa af kjörseðlum úr innsigluðum fangaklefanum.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Kjör­seðlar geymdir í kassa fyrir piña colada

Tíu kassar of ó­notuðum kjör­seðlum, þ.e. prentuðum seðlum sem ekki voru notaðir í kosningum, voru bornir úr fanga­klefanum og upp tvær hæðir af nefndar­mönnum og starfs­mönnum Sýslu­mannsins á Vestur­landi. Var hluti kjör­seðlanna geymdur í pappa­kössum sem áður geymdu bjór­flöskur og piña colada drykki.

„Þetta er allt bara sjálf­bærni,“ sagði starfs­maður Sýslu­mannsins.

Að­spurð hvort kassarnir væru þungir svöruðu nefndar­menn neitandi: „Þetta er bara góð líkams­rækt,“ sagði Líneik Anna. Spurði þá blaða­maður hvort þetta væri líkams­rækt fyrir lýð­ræðið og kinkaði Björn Leví kolli.

Starfsmenn Sýslumannsins á Vesturlandi hófu talningu á ónotuðum kjörseðlum á lögreglustöðinni í Borgarnesi í morgun.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Á­stæðan fyrir talningunni er að at­huga hvort mis­ræmi sé á fjöldi notaðra og ó­notaðra seðla til þess að ganga úr skugga um að enginn laumu­seðill hafi endað á röngum stað.

Seðlarnir eru í 100 seðla búntum fyrir utan eitt búnt sem inni­heldur 99 seðla.

„Þeir þurfa að stemma við heildar­upp­gjör í talningunni,“ út­skýrir Þórunn. „Þetta er fyrsta skrefið til að at­huga hvort þetta stemmir allt. Við viljum ganga úr skugga um þetta sjálf.“

Bætti þá Björn Leví við: „Við þurfum að tékka í öll box.“

Eftir að kassarnir voru bornir upp var fanga­klefinn inn­siglaður á ný en þar sitja allir notaðir kjör­seðlar Norð­vestur­kjör­dæmis.

Nefndarmenn fylgjast með talningunni á skrifstofunni.
Mynd/Eyþór Árnason
Líneik og Björn bera kassa með ónotuðum kjörseðlum úr fangaklefa í kjallaranum á lögreglustöðinni í Borgarnesi.
Mynd/Eyþór Árnason