Lögreglan hafði í dag afskipti af manni sem sakaður var um að hafa stolið áfengi úr verslun ÁTVR í austurbæ Reykjavíkur.

Tilkynning barst um málið um klukkan 11 en þegar lögreglan nálgaðist manninn hélt hann því fram að hann væri smitaður af COVID-19.

Lögreglan færði manninn á lögreglustöð þar sem málið fékk nánari skoðun en ekkert frekar kom fram sem renndi stoðum undir það að maðurinn væri smitaður, segir í tilkynningu frá lögreglu.

„Er talið að hann hafi verið að halda þessu fram í einhverjum annarlegum tilgangi.“

Klukkan 05:12 í morgun barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í austurbæ Reykjavíkur. Ræddu lögregluþjónar við báða aðila og var málið afgreitt á vettvangi.

Þá var tilkynnt um innbrot í geymslur í Sunnusmára í Kópavogi klukkan 06:27 en tveir menn í appelsínugulum fatnaði komust undan tilkynnanda á hlaupum, að sögn lögreglu.