Heimildir Fréttablaðsins herma að lögregla sé með til skoðunar hvort byssumaðurinn, fæddur og uppalinn á Blönduósi, einrænn í seinni tíð, hafi fyrst skotið fyrrum atvinnurekanda sinn.

Þá hafi eiginkona atvinnurekandans verið sloppin út úr eigin húsi en hafi snúið aftur við skothvellinn. Byssumaðurinn hafi þá beint byssunni að henni, skotið öðru skoti og lést konan.

Sonur hjónanna, sem var gestkomandi í húsinu ásamt barnsmóður og ungu barni, er samkvæmt heimildum blaðsins talinn hafa orðið vitni að morðinu á móður sinni. Hann hafi lagt í skotmanninn með berum höndum þegar hann var að endurhlaða byssuna í þriðja skotið. Þeim átökum lauk með bana árásarmannsins.

Syninum var sleppt úr haldi lögreglu í fyrrakvöld. Hann hefur enn stöðu sakbornings. Lögregla verst svara af gangi rannsóknarinnar en upplýsti í gær að eiginmaður konunnar sem lést væri í lífshættu.

Með afsagaða haglabyssu

Greint er frá því í Morgunblaðinu í dag að skotmaðurinn hafi notað afsagaða haglabyssu þegar hann réðst inn á heimili hjónanna og að ekki sé vitað hver hafi tilkynnt árásina en að lögreglan hafi verið komin á vettvang um 15 til 20 mínútum síðar.