Karl­maður sem lést við köfun í Eyja­firði í septem­ber árið 2019 er talinn hafa látist úr köfunar­veiki. Maðurinn var banda­rískur og á sjö­tugs­aldri. Hann var hér á landi í köfunar­ferð á­samt stórum hópi á vegum ferða­þjónustu­fyrir­tækis.

Í skýrslu rann­sóknar­nefndar sam­göngu­slysa um at­vikið er greint frá því að að or­sök slyssins hafi að öllum líkindum verið sú að ítrustu öryggis­reglum hafi ekki verið fylgt. Nefndin hvetur köfunar­fyrir­tæki til að á­rétta við við­skipta­vini sína mikil­vægi þess að gefa raun­sæjar og sannar heilsu­fars­upp­lýsingar þannig hægt sé að tryggja öryggi þeirra.

Nefndin telur að or­sök slyssins hafi að öllum líkindum verið að ekki hafi verið gætt að ítrustu öryggis­reglum. Flest bendi til þess að dánar­or­sök mannsins hafi verið köfunar­veiki sem rekja megi til of skamms tíma milli kafanna og of lítils tíma í fimm metra af­þrýsti­stoppi.

Sex kafarar voru við köfun í Eyja­firði þegar maðurinn lést. Siglt var með bát frá Hjalt­eyri til að kafa og skoða neðan­sjávar hvera­strýtur.

Í skýrslunni kemur framað maðurinn hafi farið með öðrum á­huga­kafara og leið­sögu­manni fyrstur frá bátnum. Fyrst köfuðu þeir niður á 17 metra dýpi og síðan á um 32 metra dýpi þar sem þeir dvöldust í um 20 mínútur. Allir héldu þeir svo ró­lega á­leiðis upp eftir leið­sögu­línu og var stöðvað í öryggis­stoppi á um það bil fimm metra dýpi, sam­kvæmt öryggis­reglum.

Maðurinn hélt upp á yfir­borðið eftir um það bil tvær til þrjár mínútur í öryggis­stoppinu. Hinn kafarinn beið lengur. Í skýrslunni kemur fram að honum hafi virst eins og fóta­tök mannsins hefðu hætt skömmu áður en hann náði upp og flotið hreyfingar­laus upp á yfir­borðið. Báts­verji um borð í bátnum taldi hins vegar að maðurinn hefði komið upp á yfir­borðið og gefið merki um að allt væri í lagi.

Það kom þó fljótt í ljós að eitt­hvað væri að og var maðurinn að enda tekinn með­vitundar­laus um borð í fylgdar­bát. Til­raunir til endur­lífgunar báru ekki árangur og var hann úr­skurðaður látinn eftir að hann komst undir læknis­hendur. Í skýrslunni er greint frá því að súr­efniskútar, flot­vesti og gríma hafi verið tekin af honum þegar honum var komið um borð í skipið. Þrátt fyrir ítarlega leit fundust þessir hlutir ekki aftur.

Við krufningu kom í ljós að dánar­or­sök var köfunar­veiki og þar af leiðandi er and­lát hans slys. Hann kafaði sjö sinnum á níu dögum, þar af voru þrjár síðustu kafanir á tveimur dögum og tvær af þeim á sama degi.

Sam­kvæmt því sem stendur í skýrslunni hefði í það minnsta sólar­hringur átt að líða á milli kafanna. Hversu lengi hann var við köfun er takið skýra hvers vegna hann fékk köfunar­veiki. Auk þess er maðurinn talinn hafa farið of fljótt upp sem einnig mætti tengja ein­kennum köfunar­veikinnar. Þá segir að hann hafi lík­lega ekki verið með fulla dóm­greind.