Karlmaður sem lést við köfun í Eyjafirði í september árið 2019 er talinn hafa látist úr köfunarveiki. Maðurinn var bandarískur og á sjötugsaldri. Hann var hér á landi í köfunarferð ásamt stórum hópi á vegum ferðaþjónustufyrirtækis.
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um atvikið er greint frá því að að orsök slyssins hafi að öllum líkindum verið sú að ítrustu öryggisreglum hafi ekki verið fylgt. Nefndin hvetur köfunarfyrirtæki til að árétta við viðskiptavini sína mikilvægi þess að gefa raunsæjar og sannar heilsufarsupplýsingar þannig hægt sé að tryggja öryggi þeirra.
Nefndin telur að orsök slyssins hafi að öllum líkindum verið að ekki hafi verið gætt að ítrustu öryggisreglum. Flest bendi til þess að dánarorsök mannsins hafi verið köfunarveiki sem rekja megi til of skamms tíma milli kafanna og of lítils tíma í fimm metra afþrýstistoppi.
Sex kafarar voru við köfun í Eyjafirði þegar maðurinn lést. Siglt var með bát frá Hjalteyri til að kafa og skoða neðansjávar hverastrýtur.
Í skýrslunni kemur framað maðurinn hafi farið með öðrum áhugakafara og leiðsögumanni fyrstur frá bátnum. Fyrst köfuðu þeir niður á 17 metra dýpi og síðan á um 32 metra dýpi þar sem þeir dvöldust í um 20 mínútur. Allir héldu þeir svo rólega áleiðis upp eftir leiðsögulínu og var stöðvað í öryggisstoppi á um það bil fimm metra dýpi, samkvæmt öryggisreglum.
Maðurinn hélt upp á yfirborðið eftir um það bil tvær til þrjár mínútur í öryggisstoppinu. Hinn kafarinn beið lengur. Í skýrslunni kemur fram að honum hafi virst eins og fótatök mannsins hefðu hætt skömmu áður en hann náði upp og flotið hreyfingarlaus upp á yfirborðið. Bátsverji um borð í bátnum taldi hins vegar að maðurinn hefði komið upp á yfirborðið og gefið merki um að allt væri í lagi.
Það kom þó fljótt í ljós að eitthvað væri að og var maðurinn að enda tekinn meðvitundarlaus um borð í fylgdarbát. Tilraunir til endurlífgunar báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn eftir að hann komst undir læknishendur. Í skýrslunni er greint frá því að súrefniskútar, flotvesti og gríma hafi verið tekin af honum þegar honum var komið um borð í skipið. Þrátt fyrir ítarlega leit fundust þessir hlutir ekki aftur.
Við krufningu kom í ljós að dánarorsök var köfunarveiki og þar af leiðandi er andlát hans slys. Hann kafaði sjö sinnum á níu dögum, þar af voru þrjár síðustu kafanir á tveimur dögum og tvær af þeim á sama degi.
Samkvæmt því sem stendur í skýrslunni hefði í það minnsta sólarhringur átt að líða á milli kafanna. Hversu lengi hann var við köfun er takið skýra hvers vegna hann fékk köfunarveiki. Auk þess er maðurinn talinn hafa farið of fljótt upp sem einnig mætti tengja einkennum köfunarveikinnar. Þá segir að hann hafi líklega ekki verið með fulla dómgreind.