Talið er nánast öruggt að Kristrún Frostadóttir taki við formennsku eða varaformennsku í Samfylkingunni í haust. Meiri óvissa er sögð um hvort Dagur B. Eggertsson bjóði sig fram. Hvorki Dagur né Kristrún gefa að sinni kost á viðtölum.

„Logi verður kannski ekki talinn meðal stórra leiðtoga í íslenskum stjórnmálum en hann tók við flokknum eftir einstakar hrakfarir árið 2016 og tókst að halda flokknum á floti með þrjá þingmenn,“ segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor, sem áætlar að sagan muni minnast Loga frekar vel sem formanns.

Undir það tekur Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar: „Loga fylgir mikil gleði , auðmýkt og óeigingirni, það er gott að vinna með honum. Ég er ánægður með að hann verði áfram í hópnum.“

Ólafur Þ. ?Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

Um leið og Logi tilkynnti í Fréttablaðinu ákvörðun sína um helgina fóru fjölmiðlar að ræða mögulega arftaka. Jóhann Páll segist vel sjá fyrir sér að Kristrún verði formaður eða varaformaður flokksins. Ólafur segir að nöfn hennar og Dags séu efst á baugi hvað varðar arftaka Loga.

„Þau tvö eru athyglisverðir kostir. Báðir frambjóðendur hafa eiginleika sem geta gagnast foringjum mjög vel, en það eru ekki endilega sömu kostirnir hjá þeim tveimur,“ segir Ólafur.

Ólafur segir að Kristrún hafi stimplað sig inn sem mikill spútnik í pólitík. Hún sé sérlega öflugur talsmaður jafnaðarstefnunnar og sérhæfð í efnahagsmálum. „Sem dæmi man ég fyrir síðustu kosningar að hún var í debatt við Bjarna Ben um efnahagsmál. Þá tók ég eftir að hún átti algjörlega í fullu té við Bjarna í umræðu um efnahagsmál. Það eru ekki margir sem ráða við það,“ segir Ólafur.

Einnig bendir Ólafur á að Kristrún tali mannamál, hún njóti virðingar hjá andstæðingum og það sé áhugavert hvernig hún tengi efnahagsmál líðandi stundar við grunnhugmyndir jafnaðarstefnunnar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Fréttablaðið/Ernir

„Hún er óvenjulegur stjórnmálamaður að þessu leyti,“ segir Ólafur.

Um Dag segir Ólafur að árangur hans sé mikill og Dagur hafi sýnt að hann sé í hópi okkar klókustu stjórnmálamanna. Sérstakur styrkur sé að Degi hafi tekist að vinna í fjögurra flokka meirihluta í Reykjavík. Þótt meirihluti falli nái hann að bræða saman nýjan. „Þetta skiptir máli vegna þess að í landsmálum virðist ólíklegt að hægt sé að mynda þriggja flokka stjórn án þess að sjálfstæðismenn séu hluti hennar," segir Ólafur.

Hann bætir við: „Vill Dagur taka að sér svo erilsamt starf að vera formaður flokks, sem er enn meiri vinna en að vera borgarstjóri? Af persónulegum ástæðum kann Dagur sjálfur að hafa efasemdir, þar gætu spilað inn í fjölskyldumál eða heilsa,“ segir Ólafur.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segist engin áform hafa um annað en að bjóða sig áfram fram til varaformanns í haust.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarnefnar Reykjavíkur. Mynd/Hringbraut