Eldur kviknaði í bíl við Háagerði í nótt og telur lögreglan að um íkveikju hafi verið að ræða.

Lögregla og slökkvilið fengu tilkynningu um eldinn rétt fyrir klukkan tvö í nótt og voru dælubílar sendir strax á vettvang.

Af mynd slökkviliðsins að dæma var bíllinn fyrir utan einbýlishús í götunni en til allrar lukku náði slökkvilið tökum á eldinum áður en hann dreifði sér.

Eftir að slökkvilið náði að slökkva eldinn var bíllinn fluttur af vettvangi og tók lögreglan við rannsókn málsins.

„Talið er að kveikt hafi verið í bifreiðinni,“ segir í dagbók lögreglu.

Slökkvilið var tvisvar kallað út síðasta sólarhring, annars vegar vegna bílbrunans og hins vegar vegna minniháttar bruna í heimahúsi.