Joe Biden mun tilnefna lögfræðinginn Antony Blinken sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna að sögn bandarískra fjölmiðla. Blinken, sem er 58 ára, kemur frá New York en hann hefur unnið fyrir Biden áður. Biden og Blinken hafa starfað saman í um það bil tvo áratugi.

Blinken, sem hefur verið fréttaskýrandi hjá CNN síðustu árin með áherslu á alþjóðamál, var aðstoðarutanríkisráðherra í stjórn Baracks Obama en hann gegndi því embætti frá árinu 2015 til 2017. Þar áður var hann ráðgjafi Bandaríkjastjórnar í þjóðaröryggismálum á meðan Biden var varaforseti. Blinken einbeitti sér þá að því hlutverki að miðla málum í Miðausturlöndum á meðal annars í Egyptalandi, Írak, Sýrlandi og Líbýu.

Þegar Blinken starfaði í ríkisstjórn Obamas var hann í lykilhlutverki þegar ákvörðun var tekin um áhlaupið sem varð til þess að Osama Bin Laden var felldur árið 2011 og í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Þá var Blinken falið að sjá um samskipti við Rússa í kjölfar innrásarinnar á Krímskaga árið 2014.

Ákvörðun Bidens um að tilnefna Blinken í embættið verður tilkynnt á þriðjudaginn en öldungadeild Bandaríkjaþings þarf svo að samþykkja tilnefninguna til þess að Blinken geti hafið störf sem utanríkisráðherra.Verði af þessum áformum Bidens er talið að Blinken mun breyta utanríkisstefnu sem Mike Pompeo, fráfarandi utanríkisráðherra, hefur rekið undanfarin ár.

Sem dæmi má nefna að líklegt þykir að Biden og Blinken muni freista þessa að milda samskipti Bandaríkjanna við Kína, Íran og fleiri rótgróna bandamenn landsins. Þá muni fjölþjóðahyggja eigi ríkari sess í stefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum undir stjórn Blinkens, ef af verður. Honum verði þannig falið að lappa upp á samskiptin við bandamenn Bandaríkjanna og alþjóðastofnanir sem hefur gramist sú stefna Trumps sem hefur sett Ameríku í fyrsta sæti hvað sem það kostar. 

Blinken mun koma því til leiðar að Bandaríkin virði Parísarsáttmálann og verði með í því alþjóðasamstarfi sem fram undan er í umhverfismálum.Hann mun svo fá það verkefni að bæta samskipti Bandaríkjastjórnar við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) en það kastaðist í kekki á milli Trumps og stofnunarinnar þegar deilt var um skynsamleg viðbrögð við kórónaveirufaraldrinum. Trump lét stöðva fjárframlag Bandaríkjanna til WHO eftir að stofnunin gagnrýndi aðgerðir landsins við faraldrinum.  

Bandarískir fjölmiðlar greina einnig frá því að annar náinn samstarfsmaður Bidens, Jake Sullivan, verði ráðinn þjóðaröryggisráðgjafi. Sullivan, sem er 43 ára gamall, starfaði fyrir Hillary Clinton á meðan hún var utanríkisráherra en hann var ráðandi í mótun stefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum í stjórnartíð hennar.  Ríkt traust er á milli Blinkens og Sullivans en þeir deila sömu sýn á alþjóðamál. Biden hefur á stjórnmálaferlinum treyst mikið á þá félaga þegar kemur að utanríkismálum. 

Hin 68 ára gamla Linda Thomas-Greenfield, sem hefur 35 ára reynslu af utanríkisþjónustu, verður síðan sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Hennar hlutverk verður fyrst og fremst að liðka fyrir samskiptum Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar sem hafa verið stirð í stjórnartíð Trumps.