Garðabæjarlistinn hefur farið fram á endurtalningu í sveitarstjórnarkosningum í Garðabæ og hefur kjörstjörn fallist á beiðnina. Endurtalning mun fara fram á miðvikudaginn klukkan 16:00.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Hún segir ástæðuna vera hve fáum atkvæðum munaði á að listinn næði þriðja manni inn í bæjarstjórn á kostnað sjöunda manns Sjálfstæðisflokksins.
„Við óskuðum eftir endirtalningu. Ekki vegna einhvers vantrausts heldur bara vegna þess að það var svo tæpt,“ segir Þorbjörg. Tólf atkvæðum munaði á að Garðabæjarlistinn næði inn þriðja manni.
„Við höfum engar grunsemdir um að neitt vafasamt hafi átt sér stað, heldur snýst þetta bara um þennan litla mun og við verðum rórri fyrir vikið.“