Ætla má að hundrað Íslendingar látist á ári vegna of mikillar saltneyslu, ef evrópskar rannsóknir eru yfirfærðar á Ísland, en almennt inniheldur matarsalt á borðum landsmanna alltof mikið natríum.
Þetta segir Egill Þ. Einarsson efnaverkfræðingur sem hefur á síðustu árum þróað Lífsalt, sem hann nefnir svo, úr íslenskum hafsjó og jarðsjó sem hefur að geyma mikið af kalíum en sextíu prósent minna af natríum en algeng matarsölt.
„Lækkun á natríum í salti er lífsnauðsynleg,“ bendir hann á, en matarsalt í verslunum innihaldi jafnvel 99,9 prósent af natríum. „Það leiðir til háþrýstings og lífshættulegra hjarta- og æðasjúkdóma sem er algengasta dánarorsök Íslendinga.“
Hann segir að matvælaiðnaðurinn geri okkur að fíklum með lífshættulegum söltum sem innihalda alltof mikið af natríum. En hátt gildi natríums geri matinn lystugri og fyrir vikið ánetjist neytendur salti sem geymir sem mest af natríum.
Egill segir yfirvöld heilsuverndar sífellt klifa á minni neyslu á natríumríku salti, en lítið sem ekkert gerist. Afar mikilvægt sé að draga almennt úr saltneyslu, en það eitt að draga úr daglegri neyslu, þó ekki væri nema um þriðjung, dragi verulega úr hættu á fyrrgreindum sjúkdómum.